Hér á landi ríkir töluverður ójöfnuður og virðist mér hann fara vaxandi. Vandinn liggur ekki í launaumslaginu en óvíða er jafn lítill launamunur og hér, munurinn sést hins vegar vel þegar eignaójöfnuðurinn er skoðaður. Launahæstu 10% landsmanna fengu 34% launa en 10% eignamesta fólkið á 64% eigna hér á landi. Ríkasta 5% landsmanna átti 44% alls eigin fjár í upphafi árs 2016 og fer þetta hlutfall vaxandi.

Þessi eignastaða stafar ekki eingöngu af því að hér á landi séum við með svo snjalla viðskiptamenn sem sjá tækifærin á undan öllum hinum þó vissulega séu þeir til. Því miður stafar eignamyndun margra af því að hér er gríðarlegur aðstöðumunur milli fólks þegar kemur að aðgengi að peningum á samkeppnishæfum kjörum. Hér er hópur fólks sem hefur aðgang að evrum á lágum vöxtum og fjárfestir þær í verðtryggðum krónum á háum vöxtum.

Gott dæmi um aðstöðumun er þegar útrásarvíkingar keyptu sér íslenska banka sem ryksugaði ódýrt erlent lánsfé til sín og lánaði eigendum sínum í gegnum skúffufyrirtæki með skrýtnum nöfnum. Þetta fé fór síðan í áhættumiklar fjárfestingar. Þegar hrunið dundi yfir fór bankinn á hausinn, þjóðin greiddi skaðann í gegnum óðaverðbólgu og eignamissi. Útrásarvíkingarnir sátu á sjóðum sínum í skattaparadísum en komu svo heim með féð að lokum í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans á frábærum kjörum. Þetta fé var nýtt til að kaupa upp fasteignir og fyrirtæki.

Við hin eigum ekki möguleika í samkeppninni um eignamyndun, það er ekki hægt að keppa á jafnréttisgrunni þegar sumir geta fjármagnað sig með alvöru peningum á samkeppnishæfum vöxtum á meðan við hin verðum að láta okkur óverðtryggðar krónur duga í baráttunni.

Ein leið til að jafna aðstöðumuninn þannig að allir sitji við sama borð er upptaka á nýrri mynt eða eins og Viðreisn hefur lagt til að setja á fót myntráð.

Viðreisn er flokkur sem berst fyrir kerfisbreytingum almenningi til heilla.

Jón Ingi Hákonarson

Formaður Viðreisnar í Hafnarfirði