Á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka hef ég oft orðið var við að bæjarbúar og fyrirtæki fái ekki almennilega eða ásættanlega úrlausn sinna mála af hálfu bæjarins. Margir hverjir fá ýmist ekki fullnægjandi svör eða misvísandi svör.

Við Vinstri Græn viljum bregðast við þessu með því að stofnað verði óháð embætti umboðsmanns Hafnfirðinga sem allra fyrst á næsta kjörtímabili. Embættið er að fyrirmynd umboðsmanns borgarbúa í Reykjavík. VG vill að umboðsmaður Hafnfirðinga verði óháð embætti sem bæjarbúar og fyrirtæki geta leitað til með ráðgjöf og leiðbeiningar í samskiptum sínum við bæinn.

Mikilvægt er að umboðsmaður Hafnfirðinga fái gott svigrúm og að gerðar verði skýrar reglur um embættið til þess að umboðsmaður geti sinnt starfi sínu sem allra best í þágu bæjarbúa og fyrirtækja. Með þessu er hægt að tryggja fagleg góða stjórnsýslu.

Kjörnir fulltrúar vinna í umboði bæjarbúa en umboðsmaður er embætti sem bæjarbúar og fyrirtæki geta leitað til ef þeir telja að bærinn hafi brotið á rétti þeirra eða mismunað þeim á einhvern hátt. Einng væri hægt að leita til umboðsmanns með leiðbeiningar í samskiptum við sveitarfélagið. Bætum stjórnsýslu bæjarins og kjósum VG.

 

Júlíus Andri Þórðarson

Laganemi og skipar 4. sæti VG í Hafnarfirði