Í síðustu viku fjallaði Fjarðarpósturinn um umferðaróskipulagið í kringum nýja verslun Krónunnar við Flatahraun og var það afskaplega vel til fundið. Það virðist vera að þeir sem skipulögðu þetta svæði hafi búist við að fólki kæmi þangað svífandi af himnum ofan. Þetta er því miður svolítið sagan af þessu mjög svo vaxandi svæði verslunar og þjónustu við Fjarðarhraun og Bæjarhraun. Þetta svæði er búið að vaxa gífurlega á síðasta áratug og við Hafnfirðingar fögnum því að sjálfsögðu. Gallinn er samt að maður leggur sig alltaf í ákveðna hættu við að sækja sér þjónustu þangað. Þetta er smá svona skipulagt kaos á litlu svæði. Fyrir utan þetta nýja óskipulag í kringum Krónuna þá er hringtorgið við Kaplakrika sennilega það furðulegasta á öllu landinu. Til hamingju Hafnarfjörður með það. Það að hafa fimm götur sem liggja að jafn fjölförnu hringtorgi er bara ekki í lagi.

Að mínu mati hefði verið gáfulegast að til dæmis loka endanum á Bæjarhrauni inn á hringtorgið og setja þess í stað annað hringtorg við Hjallahraun sem myndi þá tengjast inn á Bæjarhraunið. Það myndi ekki bara minnka slysahættu, heldur myndi það tengja betur saman þjónustuna sitt hvorum megin við. Allir glaðir.

Þegar ég keyrði um Flatahraun um daginn sá ég konu með barnavagn og tvö börn standa ráðvillt við innkeyrsluna á löggustöðinni þar sem hún var greinilega að reyna að komast yfir í húsnæði Krónunnar. Þarna var hún föst vegna þess að þar er ekki gert fyrir gangandi vegfarendum á þessu svæði. Þetta er eiginlega ekki boðlegt. Ég trúi því og treysti að bæjaryfirvöld séu í startholunum við að byrja á framkvæmdum á þessu svæði. Það væri nefninlega flott að klára þetta áður en það skyggir meira og ruðningar og slabb gera öllum vegfarendum enn erfiðara fyrir. Þá getur fólk keypt í matinn, náð sér í rúnstykki eða pizzu án þess að leggja sig í lífshættu. Hvernig væri það?