Umhverfið er okkur öllum hugleikið. Flest viljum við hafa hreint og snyrtilegt í námunda við okkar nánasta umhverfi og á þeim stöðum sem við förum til að njóta útivistar og snertingu við náttúruna. Það er ekkert sjálfgefið að finna hreint og tært umhverfi eins og t.d. í upplandi Hafnarfjarðar þar sem margir hafa lagt hönd á plóg með bættu aðgengi að náttúrperlum upplandsins ásamt því að auka vitund almennings að bættri umgengni um náttúruna.

Iðnaðarsvæðin

Frá því að undirritaður og Rósa Guðbjartsdóttir lögðum fram  tillögu í ágúst árið 2010 í skipulags- og byggingarráði um „Átak í hreinsun iðnaðarsvæða á Hraunum og Hellnahraunum.“ hefur verið farið í hreinsunarátak á iðnaðarsvæðum bæjarins á hverju ári til þessa, og nú er hreinsað til á iðnaðarsvæðum bæjarins dagana 15. september til 6. október. Það varðar okkur öll að umhverfið sé með þeim hætti að okkur líði vel hvar sem við erum stödd, það á jafnt við um upplandið, útivistarsvæðin og íbúðar- og iðnaðarhverfin. Það er langt í land með að mörg  fyrirtæki og einstaklingar sem eiga athafna- og iðnaðarlóðir séu meðvitaðir um mikilvægi þess að setja umhverfið í forgang. Vissulega eru mörg fyrirtæki til fyrirmyndar í umhverfismálum en hin sem lítinn skilning hafa á mikilvægi þess að hafa snyrtilegt við sitt nánasta umhverfi skyggja á það sem vel er gert.

Hagur allra

Hafnarfjarðarbær hefur aukið verulega fjármagn til umhverfismála og stefnt er á að gefa betur í enda næg verkefni í þeim málaflokki. Íbúar sem eru langflestir til fyrirmyndar í þessum málum tóku virkan þátt í hreinsunarátaki sl. vor, og nú er einblínt á iðnaðarsvæðin. Það er hagur allra að umhverfið sé aðlaðandi, að við öll göngum vel um bæinn og náttúruna, iðnaðar- og þjónustuhverfin eru engin undantekning frá því. Ég hvet forsvarsmenn fyrirtækja og lóðarhafa á iðnaðarsvæðum bæjarins að taka virkann þátt í umhverfisátakinu sem nú stendur yfir.

Ó. Ingi Tómasson

Bæjarfulltrúi

Formaður skipulags- og byggingarráðs.