Síðastliðið haust var lögð fram til umsagnar endurskoðuð umhverfis- og auðlindastefna Hafnarfjarðarbæjar. Eldri stefna var komin til ára sinna en umhverfismál eiga að endurspegla samtímann og þann lífstíl sem við bæjarbúar höfum valið okkur og mikilvægt að uppfæra stefnuna reglulega í takti við tíðarandann.

Leiðarstef í nýrri stefnu er sjálfbærni og náttúruvernd með áherslu á verndun auðlinda, náttúru- og menningarminja. Einnig áhersla á umhverfisvöktun, hún sé virk og niðurstöður aðgengilegar. Jafnframt að sveitarfélagið leggi sitt af mörkum við að draga úr myndun úrgangs með vistvænum innkaupum, ábyrgri neyslu, og virkri endurnýtingu og endurvinnslu. Þá er afdráttarlaust í stefnuskránni að efla almenningssamgöngur og auka hlut hjólandi og gangandi vegfarenda. Undirtónninn er jafnrétti og aðgengi fyrir alla að heilnæmum umhverfisvænum lífstíl.

Markmiðið með stefnunni er að Hafnarfjörður sé ekki eftirbátur annarra sveitarfélaga í umhverfis- og náttúruverndarmálum, heldur í fremstu röð. En til að svo geti orðið þarf samstillt átak íbúa og Hafnarfjarðarbæjar. Einstaklingar og fjölskyldur geta gert margt eins og að ganga í vinnuna, hjóla eða nota strætó í ríkara mæli; borða minna kjöt og meira af grænmeti og ávöxtum; pæla í sínum lífsstíl og minnka almenna sóun. Margt smátt gerir eitt stórt en stærri skref eru stigin þegar sveitarfélagið skoðar sína hætti, bregst við og breytir því sem bærinn getur.

Þann 25. apríl síðastliðinn samþykkti bæjarstjórn nýju stefnuna einróma. Þá blasir við að þegar verði ráðist í skýra aðgerðaáætlun fyrir helstu verkefni sem fram koma í stefnunni, þau tímasett og fjármögnuð. Að öðrum kosti hefur stefnan enga þýðingu.

Davíð A Stefánsson, 6. sæti á lista Vg fyrir bæjarstjórnarkosningar