Andri Steinar Johansen sigraði í Stóru upplestrarkeppninni sem fram fór fyrir skömmu. Hann segist að sjálfsögðu hafa stefnt á topp þrjú en ekki endilega eiga von á að verða í því fyrsta. Hann bætti þar með árangur stóra bróður síns, sem varð í þriðja sæti fyrir tveimur árum. Við hittum Andra Steinar í Hellisgerði. Hann á afar auðvelt með að taka hrósi og þakkar hlýlega fyrir sig. Það er fallegur eiginleiki og ekki öllum gefinn.

„Mér leið mjög vel í upplestrinum og ég er ekki feiminn yfir höfuð. Anton Fannar, stóri bróðir minn, var í 3 . sæti fyrir 2 árum. Þá kom keppnisskap í mig til bæta það og það er gaman að það tókst. Hann var mjög stoltur og ánægður með mig. Hann var líka aðeins að hjálpa mér fyrir keppnina og gaf góð ráð,“ segir Andri Fannar og bætir við aðspurður að hann sé svona góður í að lesa upphátt því að foreldrar hans hafi alltaf verið duglegir að hvetja hann áfram. „Mamma hefur alltaf sagt að æfingin skapi meistarann!“

Andri Steinar ásamt Kristu Sól Guðjónsdóttur, Áslandsskóla (2. sæti) og Ísabellu Alexöndru Speight úr Öldutúnsskóla (3. sæti).

Stærðfræði styrkur og áhugamál

Andra Steinari finnst mest gaman að lesa Þín eigin bækurnar. „Þær eru spennandi og maður lærir svo margt af því að lesa þær. Setbergsskóli er líka góður skóli sem leggur mikla áherslu á lestur. Við æfðum okkur mikið þar fyrir upplestrarkeppnina.“ Spurður um framtíðaráform þá stefnir Andri Steinar á að fara í Verzló og þaðan í háskóla í stærðfræðinám. „Ég á gott með stærðfræði, hún er líka stórt áhugamál mitt. Ég æfi líka fótbolta með FH og taekwondo. Æfingarnar skarast ekki mikið og hef náð að mæta vel. Ég er skipulagður en það kemst ekki mikið meira að núna. Jú að lesa,“ segir hann og hlær.

Spurður um ráð til þeirra sem langar að verða góðir í upplestri: „Hlustið á fyrirmæli kennara og foreldra sem eru góðir í lestri. Þetta hefur mikla þýðingu varðandi framtíðina og er góður undirbúningur fyrir svo margt og eykur sjálfsöryggi. Þetta er líka góð leið til að viðhalda góðri íslensku,“ segir Andri Steinar að lokum.