Myndband sem dreift var á Facebook síðu Fjarðarpóstsins, vegna 35 ára afmælis bæjarblaðsins í ár, hefur vakið mikla athygli og áhorf er komið hátt í 8000. Myndbandsgerðarmennirnir Beit, þeir Hörður Þórhallsson og Þorsteinn Roy Jóhannson, fengu nokkuð frjálsar hendur með gerð þess, en undirbúningurinn fólst aðallega í því að ritstjóri blaðsins tók vænan rúnt með þeim um bæinn og benti þeim á kennileiti og staði. Í stuttu máli heilluðust félagarnir mjög af Hafnarfirði og okkur fannst því tilvalið að fjalla um hvernig utan að komandi upplifa Hafnarfjörð á svona skömmum tíma og kynna um leið hvernig myndband sem þetta verður til.

Fjarðarpósturinn, bæjarblað Hafnfirðinga í 35 ár.

Í tilefni af 35 ára afmæli Fjarðarpóstsins langaði okkur að skipta um „lógó“ og fengum strákana í Beit í lið með okkur til að búa til þetta myndband. Íbúar Hafnarfjarðar nálgast 30 þúsund og hér blómstrar svo ótal margt sem við hlökkum til að fjalla um á árinu. Bærinn er ekkert án fólksins og við fjöllum um fólk. Við mælum með að horfa á myndbandið í HD – eða bestu gæðum.

Posted by Fjarðarpósturinn on 1. janúar 2018

Myndbandið sem Hörður og Þorsteinn gerðu fyrir Fjarðarpóstinn. 

Hörður umkringdur áhugasömum nemendum leikskólans Tjarnaráss sem eiga stór hlutverk í myndbandinu. Mynd: Beit.

Beit kíkti á föstudagsball á Hrafnistu. Mynd: skjáskot. 

Skjáskot úr myndbandinu. Lækurinn rétt við Hafnarborg.

Áslandsskóli tók mjög vel á móti Beit. Einnig skjáskot.

Tekin voru víð drónaskot og allt niður í smæstu skartgripagerðarskot. 

„Við kynntumst Hafnarfirði og bæjarbúum á mjög skemmtilegan hátt. Við höfðum aldrei ekið um bæinn að ráði, bara einhvern veginn í gegnum hann á leið okkar að Kaplakrika og Ásvöllum og aðeins um miðbæinn. Við vorum þarna á ferðinni í þrjá tökudaga og fengum alveg rosalega jákvæða mynd af bænum. Við mættum fólki á förnum vegi og sem bauð góðan dag út í eitt og ótrúlega margir voru jákvæðir í að vera hluti myndefni. Upplifunin var eiginlega þorp í stórum bæ,“ segja Hörður og Þorsteinn, en þeir hafa þekkst mjög lengi, eru góðir vinir sem klára setningar hvors annars til skiptis.

Sýnishorn út myndbandi sem Beit gerði fyrir Vini Vatnajökuls. 

Efni á Snapchat myndi lifa lengur á Youtube

Félagarnir er gamlar sálir austan af landi, annars vegar frá sjávarþorpinu Höfn í Hornafirði og hins vegar sveitabænum Svínafelli. Báðir tala þeir afar skýrt mál og það vottar skemmtilega fyrir sjaldgæfum skaftfellskum einhljóðaframburði. Þeir kláruðu BA nám í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri og byrjuðu að taka að sér myndbandagerð í janúar 2016 undir nafninu Beit. „Þetta var hugmynd sem við mótuðum og ræddum mánuðina á undan. Við sóttum um styrk frá Vinum Vatnajökuls til að gera kynningarefni með þeirri áherslu að það yrði afþreyingarefni. Við vorum áður miklir Youtube notendur og fylgdumst með þróuninni þar, sérstaklega varðandi kostað efni (e. sponsored content). Það reyndist erfitt í framkvæmd og á þeim tíma var markaðurinn ekki að biðja um slíkt. Snapchat tók við,“ segja Hörður og Þorsteinn.

Gott að vera vel græjaðir! Mynd: Beit. 

Við tökur í hesthúsi. Mynd: Beit.

Þeir félagar bæta við að í raun sé magnað að meira sé lagt í að „sponsa“ alls kyns hluti og viðburði á Snapchat í stað myndabanda sem lifa áfram og hægt sé að sjá aftur og aftur. „Mjög áhugaverð og vinsæl kennslumyndbönd eru gerð á Snapchat sem svo bara hverfa þegar fólk ætlar að fara eftir þeim þegar þau heyra af þeim. Margir frægir „Snapparar“ fengju örugglega miklu meira áhorf og styrki á Youtube eða Facebook þar sem myndböndin lifa lengur. Videó-fítusinn í símanum er þannig að það er hægt að taka hlé og halda áfram og það eru til svo auðveld klippiforrit. Þá er líka betra að snúa símanum þversum, það er hægt að vinna miklu meira með það.“

Hörður rýnir í gæðin. Mynd: Beit. 

Við tökur á myndbandi fyrir forsetaframbjóðanda snemmsumars 2016. Mynd: Olga Björt. 

Fara oft í leikstjórahlutverk

Í dag er mest að gera hjá Beit við gerð auglýsinga, kynningarefnis, árshátíðar- og brúðkaupsmyndbanda, auk myndbanda fyrir fjölmiðla eins og Bændablaðið og Fjarðarpóstinn. „Við gerum mikið af kynningarefni fyrir ferðaþjónustuna og notumst þá við alls kyns tæki, s.s. dróna, DSLR vélar og annars tökubúnaðar. Fórum t.d. í kajakferð eins og fluga á vegg og upplifðum hana sjálfir og tókum upp vítt efni. Svo fórum við í aðra tökuferð og smelltum fólki í leiðandi hlutverk og tókum þá meira af nærmyndum. Við sjáum oft persónu sem er tilvalin í hlutverk og þá fylgist áhorfandinn með henni og upplifir ferðina í gegnum hana,“ segjar Hörður og Þorsteinn og að slík vinna sé ekki síður krefjandi og í raun leikstjórahlutverk. „Það skiptir svo miklu máli að segja ákveðna sögu, ekki endilega áberandi en samt áþreifanlega. Tónlistin skiptir einnig miklu máli og öll stemning og framsetning.“

Þorsteinn og dróninn, einn besti vinur hans. 

Enginn forstjóri eða framkvæmdastjóri

Félagarnir eru sammála um að í verkefnum sem þeir fái hafi þeir mikið sköpunarfrelsi og það skipti líka miklu máli. Árshátíðamyndbönd séu t.d. nánast fræðigrein út af fyrir sig og þau megi alls ekki vera of löng. „Það gerist oft eitthvað fyndið í tökuferli hjá mörgum í slíkum undirbúningi sem skilar sér ekki almennilega til áhorfenda. Svona ‘þú hefðir þurft að vera þar’ og á ekki heima í lokamyndbandinu.“ Betra sé að hafa efni styttra og hnyttnara. „Við vinnum náið með þeim sem fá okkur í verkefni. Þeir gefa okkur svigrúm til að hanna handrit út frá fyrirfram gefnum hugmyndum. Það er mjög sjaldan sem okkur eru lagðar línur allan tímann. Við erum allt í senn; tökumennirnir, klippararnir, verkstjórarnir og öll hin hlutverkin. Við getum alltaf leyst hvorn annan af, annars gengi þetta ekki upp. Hér er enginn forstjóri eða framkvæmdastjóri. Við erum bara báðir jafnir og vinnum vinnuna okkar,“ segja Hörður og Þorsteinn og kveðja brosandi.

 

Forsíðumynd tekin á þaki skrifstofu Beitar við Síðumúla: Olga Björt.