Ég samsama mig yfirleitt aldrei við hugtakið „þjóð“ og er yfirleitt nokk sama um þessa svokölluðu ímynd Íslands – hvort „við“ séum fallegasta þjóð í heimi í augnablikinu, eigum sterkustu karlmennina út af einhverri keppni í Skotlandi eða afkastamestu bankaræningjana. Ég svíf venjulega létt og fimlega eins og svala yfir öllu svona þjóðrembingstali, en ég get þó ekki sagt að ég sé laus við allan rembing. Hann gerir nefnilega vart við sig um leið og einhver vogar sér að kalla Hafnarfjörð „úthverfi“.

Ég hef hingað til brosað góðlátlega þegar þeir Reykvíkingar sem ég vinn með kalla Hafnfirðinga heimska, beindi þeim þá á að Hafnfirðingabrandarar sýni þess heldur að Hafnfirðingar kunni að hugsa út fyrir rammann og finnist gaman að prófa eitthvað nýtt – þeir séu greinilega ófeimnir við að reyna á sköpunarkraftinn og stunda tilraunastarfsemi.

Margir Reykvíkingar eru einnig alltaf að japla á því, að Hafnarförður sé gjaldþrota bæjarfélag – en hver er nú ekki gjaldþrota í dag? En þegar Hafnarfjörður er kallaður úthverfi þá fellur mér allur ketill í eld. Ég verð orðlaus – aðallega af því að þá fer af stað kvikmynd innan í höfðinu á mér. Hún byrjar yfirleitt á þeim sánkti Jósepssystrum að byggja glæsilega spítalann sinn, sem opnaði 1925 og skipti þá sköpum fyrir heilsuvernd á Íslandi. Þaðan er haldið til Bjarna Sívertsen með sögulega þilskipaútgerð sína undir lok 18. aldar og síðan sjást nokkrir Hansakaupmenn sem hér höfðust að á 16. öld. Þá bregður fyrir Jóhannesi Reykdal sem rafvæddi landið eftir að hafa virkjað Lækinn og að lokum sé ég fyrir mér skrúðgarðinn Hellisgerði í blóma og sólina setjast á Garðaholti með tilheyrandi litasprengju á kvöldhimninum. „Hafnarfjörður er bær,“ svara ég að kvikmyndasýningunni lokinni.

Síðan passa ég mig á að ganga vasklega á brott, því hvorki langar mig að Reykvíkingar sjái að ég sé nánast klökk, né að þeir fari að uppgötva sögulega bæinn Hafnarfjörð og flykkjast hingað í tonnatali með sínum lundabúðum, túristarútum og síhækkandi fasteignaverði.