Í Hvaleyrarskóla er hafin markviss útikennsla í heimilisfræði. Skólinn fékk til umráða í fyrravetur gæsluvöllinn sem liggur á milli leikskólans Álfasteins og Hvaleyrarskóla. Foreldrafélag Hvaleyrarskóla gaf skólanum eldstæði þar sem eldað er við kol og opinn eld. Þetta hefur vakið mikla lukku hjá nemendum. Eldstæðið hefur verið notað bæði af nemendum Hvaleyrarskóla og Álfasteins.

Með útikennslunni er verið að brjóta upp kennsluna og sýna nemendum fram á að eldaður matur þarf ekki alltaf að koma úr fínu eldhúsi. Þau læra að kveikja upp bál, í kolum og nota gas. Þeim er kynnt allar hættur sem af eldi getur hlotist. Gamli gæsluvöllurinn hefur fengið á sig nýtt nafn, „Reykkofinn“ enda leggur anganin af kolum og opnum eldi yfir Holtið þessa dagana eftir að skólinn fór af stað. Stefnan er að fara út með alla bekki frá 4.  – 9. bekk tvisvar yfir veturinn, hvort heldur það er snjór eða ekki og er tilhlökkun bæði hjá nemendum og kennara.

Ekki amalegt að læra að bjarga sér ef rafmagnið fer af!