Árið hefur verið annasamt að vanda hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Sveitin hefur sinnt 83 útköllum fyrstu 11 mánuði ársins, þar af voru 26 leitarverkefni, 15 beiðnir um aðstoð við að koma slösuðum til byggða, 11 óveðursverkefni, 11 bíltengd verkefni vegna fastra bifreiða og umferðaslysa, 7 verkefni á sjó ásamt viðbragðsverkefnum tengt Keflavíkurflugvelli og þjónustuverkefnum fyrir lögregluna.

Starfið hefur jafnframt verið afar líflegt en mikill áhugi hefur verið meðal Hafnfirðinga um starfið sem sést best á góðri þátttöku í nýliðaþjálfun og unglingadeild. Nýliðar eru fullorðnir eintaklingar eldri en 18 ára sem hafa hug á að verða björgunarmenn, þjálfun þeirra tekur um 18-24 mánuði. Nýliðar í þjálfun eru nú samtals 24, 10 sem ljúka þjálfun á vormánuðum og 14 sem hafa nýhafið þjálfun. Unglingadeildin Björgúlfur er afar blómleg með 28 virka unglinga í starfi.

Skyndihjálparæfing í höfuðstöðvunum.

Sterk vinabönd hafa myndast.

Sveitin stóð vaktina á hálendinu vikuna 12.-19. ágúst. Það var frá 15 manna hópur sem fór í Landmannalaugar með mikið af búnaði en farið var á þremur bílum frá sveitinni og tveimur einkabílum, sexhjól sveitarinnar, tveir krossarar og þrjú reiðhjól og með í för var stelpa sem starfar í norskri björgunarsveit. Skátafélagið Hraunbúar í Hafnarfirði veitti sveitinni stuðning með því að lána stærðarinnar tjald í verkefnið sem nýttist vel sem bækistöð. Vika á fjöllum er gefandi fyrir alla og hvað þá að geta hjálpað fólki sem þarf á því að halda. Félagslegi þátturinn og hópeflið er líka frábært, maður kynnist sínum félögum betur og gerir því starfið bæði skemmtilegra og betra.

Hálendisgæsla.

Slysavarnadeild Hraunprýði afhendir endurskinsmerki.

Slysavarnadeildin Hraunprýði afhendir vesti til leikskóla.

Fjarskiptaflokkur er virkur og mikilvægur flokkur. Helstu verkefni fjarskiptaflokks eru að halda utan um búnað sem sveitin á og eins að aðstoða aðgerðarstjórnir á svæðum þar sem erfitt er um fjarskipti og ekki þarf að leita langt til þess. Innan marka höfuðborgarsvæðisins eru staðir þar sem lélegt fjarskiptasamband er vegna skugga frá fjöllum. Meðlimir hafa fengið mikla þjálfun hér heima og erlendis og eru meðal annars hluti af Alþjóðabjörgunarsveitinni og hafa sinnt útköllum erlendis.

Hjól koma sterk inn sem björgunarbúnaður.

Sjóflokkur starfrækir báta sveitarinnar en við höfum ætíð verið með öfluga og reynda menn í farabroddi með mikla þekkingu á sjómennsku. Þá hafa félagar í sjóflokk margir hverjir sérhæft sig sem kafarar.

Bílaflokkur fékk mikla upplyftingu á árinu með kaupum á tveimur nýjum bifreiðum frá Öskju. Annars vegar pallbíl Mercedes X-Class fyrir sporhundahópinn og fólksflutningabíl Mercedes Vito til almennra nota. Þá fékk Spori 2, Land Cruiser 46’ breyttur, algjöra andlitslyftingu er félagsmenn strípuðu hann niður í bert járn og endursmíðuð að öllu leyti. Teljum við að Spori 2 sé nú einn öflugasti breytti bíll á landinu.

Skyndihjálparnámskeið á Úlfljótsvatni í ár.

Sporhundaflokkur okkar er í blóma, með tvo blóðhunda og færan hundaþjálfara í fararbroddi. Útköll hafa verið þó nokkur á flokkinn en mikið er um leitarútköll vegna týndra einstaklinga en hundarnir sinna einnig sértækum leitarbeiðnum frá lögreglu. Í hvert útkall fylgir hundinum flokkur manna, sporhundaþjálfarinn sem les í hegðun hundsins og rekur slóðina með honum, 1-2 aðstoðarmenn sem hlaupa með og sjá um fjarskipti og lesa í ytri aðstæður fyrir þjálfarann ásamt bíl og bílstjóra. Sporhundahópurinn státar af góðum viðbragðstíma og í flokknum eru okkar færustu leitartæknisérfræðingar enda hefur hópurinn sýnt góðan árangur undanfarin misseri.

Útkall á jökul að sækja ferðamann.

Landflokkur er eining sem heldur utan um allan mannskap Björgunarsveitarinnar sem starfar á landsviði. Innan landflokks starfa sérhæfðir hópar sem allir starfa mestmegnis á landi: leitartæknihóp, fjallahóp, undanförum og sjúkrahóp. Allir þessir hópar hafa verið virkir á árinu með fjölmörgum æfingum, helst ber að nefna mikla virkni í fjallgöngum en farin er að minnsta kosti ein dagleið í hverjum mánuði. Stórar slysaæfingar hafa verið á árinu má þar helst nefna stórslysaæfinguna sem haldin var samhliða söfnunarþætti Slysavarnafélagins Landsbjargar á Stöð 2 á haustmánuðum og stórar flugslysaæfingar m.a. á Egilsstöðum.

Undanfarar í útkalli.

Sveitarmeðlimir hafa jafnframt verið duglegir að sækja sér viðbótarþjálfun hér heima sem og um allan heim, til að víkka sjóndeildarhringinn til dæmis á erlendum ráðstefnum og æfingum og aðrir hafa farið enn lengra og klifið erlend fjöll og lagt í bakpokaferðalög. Við erum sterk sveit vegna þess að við erum samsett af fólki af ólíkum aldri, af öllum þjóðfélagsstigum, menntun okkar er ólík sem og lífsreynslan sem við höfum sankað að okkur. Saman vinnum við sem ein heild í verkefnum fyrir Hafnfirðinga og þá sem á þurfa að halda.

Í desember fer fram fjáröflun fyrir komandi ár, við seljum falleg jólatré í upphafi mánaðar og flugelda í lok árs. Þessar fjáraflanir sem og salan á Neyðarkallinu í nóvember er það sem heldur sveitinni útkallshæfri, sér okkur fyrir endurnýjun á búnaði og rekstri tækja okkar.

Við erum Hafnfirðingum afar þakklát fyrir velvildina sem okkur er sýnd og meðbyrinn sem við finnum.

 

Opnunartími Jólatrjáasölunnar  í Hvalshúsinu, horni Flatahrauns/Reykjavíkurvegar:

Virka daga : 13:00 – 21:30
Laugardag og sunnudag : 10:00 – 21:30

Flugeldasalan fer fram á 3 stöðum:

Björgunarmiðstöðin Klettur Hvaleyrarbraut 32, neðri hæð (Lónsbrautar
megin)
Gamla björgunarmiðstöðin, Flatahraun 14
Sölustaður Vellir, Tjarnarvellir 1

Opnunartímar flugeldasölu:
28. des: frá kl. 10-22 – 29. des: frá kl. 10-22
30. des: frá kl. 10-22 – 31. des: frá kl. 9-16

Þrettándasala í Kletti, björgunarmiðstöð:
5. jan frá kl. 14-22 – 6. jan frá kl. 10-20