Hafnfirska hljómsveitin Botnleðja skipar 5. sæti af 10 yfir bestu fyrstu plötur íslenskra poppara með fyrstu plötu sína Drullumall frá árinu 1995. Í ár eru 21 ár frá útgáfu 2. plötu þeirra, Fólk er fífl og var hún endurútgefin 1. september á hinu forláta vínilformi. Botnleðja er skipuð þeim Haraldi Frey Gíslasyni, Heiðari Erni Kristjánssyni og Ragnari Pál Steinssyni og Fjarðarpósturinn hafði samband við Harald Frey vegna þessara tímamóta. 

Rás 2 skipaði hóp álitsgjafa sem setur saman topp tíu lista yfir ýmis tónlistartengd málefni. Fyrsta verkefnið var að velja besta frumburð, það er fyrstu breiðskífu, íslensks tónlistarmanns eða hljómsveitar. Tæplega 50 plötur komust á blað, en hátt í 30 álitsgjafar skiluðu inn listum. Hversu mikils virði er þessi útnefning Botnleðjumönnum? „Það er bara gaman að einhverjir kunna að meta frumburð okkar 22 árum eftir að Drullumall kom út og telji hana standa jafnfætis öllum þeim plötum sem eru á listanum,“ segir Haraldur.

Samþykktu gjörninginn

Spurður um hvernig það kom til að hljómsveitin ákvað að endurútgefa Fólk er fífl segir Haraldur að nafni hans, Haraldur Leví Gunnarsson hjá Record Records, hafi gengið með þennan draum í maganum. „Við gerðum lítið annað en að samþykkja gjörninginn og passa okkur á að vera ekki fyrir í framkvæmdinni!“ Þríeykið sigraði Músíktilraunir árið 1995 og gaf strax í kjölfarið út sína fyrstu breiðskífu. Fólk er fífl er fáanleg í öllum verslunum sem selja vínylplötur.

Mynd: Anton.