Ásgeir Páll ungur í blaðaviðtali.

Í lok október á síðasta ári voru þrjátíu ár síðan Ásgeir Páll Ágústsson hóf störf í útvarpi er hann gekk með plötubunkann sinn inn á útvarpsstöð framhaldsskólanna, Útrás, í fyrsta sinn og stýrði sínum fyrsta útvarpsþætti. Síðan þá hefur Ásgeir starfað á fjölmörgum útvarpsstöðvum en auk þess að sitja við hljóðnemann hefur Ásgeir starfað sem óperusöngvari í Þýskalandi, kennt söng, starfað við heyrnamælingar,  tekið að sér veislustjórn, séð um bingó og verið diskótekari.

Lék útvarpsmann við plötuspilarann

Ásgeir flutti í Hafnarfjörð sex ára gamall. „Ég gekk í Víðistaðaskóla og bjó í Firðinum allt þar til ég flutti til Austurríkis og Þýskalands árið 2006.“ Útvarpsáhugi Ásgeirs kviknaði snemma. „Ég fékk óbilandi áhuga á útvarpi ungur að árum. Líklega hefur það verið um svipað leyti og Rás 2 fór í loftið og seinna Bylgjan og Stjarnan, blessuð sé minning hennar. Þá lá ég yfir útvarpsþáttunum og stóð svo yfir plötuspilaranum heima og lék útvarpsmann,“ segir Ásgeir.

Starfaði á Útvarpi Sögu

Meðal þeirra útvarpsstöðva sem Ásgeir hefur starfað á eru Bylgjan, Stjarnan, FM957, Létt 96.7 og Sólin, „Og meira að segja á Útvarpi Sögu sem á þeim tíma spilaði íslenska tónlist. Sumar þeirra stöðva sem ég hef talið upp eru ekki starfræktar lengur,“ segir Ásgeir sem starfar um þessar mundir á útvarpsstöðinni K100 þar sem hann stýrir þáttunum Opið um helgar.

Við míkrafóninn á Gullinu 90.9 á 10. áratug síðustu aldar.

Spilað inn á ímyndunarafl hlustandans

En hvað er það sem er svona heillandi við útvarp? Ásgeir Páll segist marg oft hafa spurt sjálfan sig að þeirri spurningu. „Stundum er sagt að útvarp sé leikhús hugans. Með hljóðheimi útvarps er hægt að spila inn á ímyndunarafl hlustandans og hafa mikil áhrif. Þetta finnst mér heillandi. Auk þess er útvarp gríðarlega hraður miðill. Þegar eitthvað gerist sem þarf að komast til almennings er útvarpið miðillinn sem fyrst getur komið fréttum af atburðum til almennings.“

Trúnaðarsamtöl sem leka í loftið

Ýmislegt getur gerst í beinni útsendingu og hefur Ásgeir Páll lent í ýmsum uppákomum í beinni, sem fæstar eru prenthæfar. „Ég hef nokkrum sinnum gleymt að slökkva á mikrófóninum og átt trúnaðarsamtöl við vini sem hafa lekið í loftið og valdið mér og öðrum pínu óþæginum eftir á. Kærasta vinar míns hringdi í hann eftir eitt slíkt tilfelli og sleit sambandinu.“

Alltaf á Partývaktinni. Gömul auglýsing frá Kananum, sem nú er K100.

Beit í tunguna og nagaði kinnarnar að innan

Sögurnar eru fleiri. Ásgeir segir að hann eigi erfitt með að bæla hláturinn niður ef honum finnist eitthvað fyndið. „Fyrir  mörgum árum stýrði ég ásamt Kristófer Helgasyni vini mínum þættinum Reykjavík síðdegis. Rétt áður en við áttum að taka viðtal við reykvískan stjórnmálamann les Kristófer frétt utan úr heimi þar sem maður endaði á sjúkrahúsi eftir að hafa átt samræði við bröddgölt. Hann sagði frá þessu rétt eins og hann væri að segja fréttir af veðri og það var alveg sama hvað ég beit í tunguna og nagaði kinnarnar að innan, mér tókst ekki að halda niðri í mér hlátrinum, eins óviðeigandi og það var. Um það bil tveimur mínútum seinna náðum við að jafna okkur og héldum áfram með þáttinn og kynntum inn viðmælandann sem hafði beðið á línunni allan tímann og var alls ekki skemmt,“ segir Ásgeir Páll hlæjandi að lokum.

 

Viðtal: Ágústa Arna Sigurdórsdóttir

Forsíðumynd: Olga Björt

Aðrar myndir. Tímarit.is