Hafnfirðingarnir Margrét G. Thoroddsen og Myrra Rós Þrastardóttir eru meðal þeirra sex kvenna sem standa að framtaki sem heitir Tónsmiðja Kítón, en Kítón er heiti yfir félag kvenna í tónlist og í tónsmiðjunni þeim stöllum eru Erla Stefánsdóttir, Ingibjörg Fríða Helgadóttir, Jana María Guðmundsdóttir og Jelena Ciric. Tónsmiðjan stendur yfir þessa dagana þar sem tónlistarkonunum sex er stefnt saman í vinnusmiðju í eina viku, sem endar með tónleikum þann 8. sept næstkomandi í Stykkishólmi. Fjarðarpósturinn heyrði í Margréti til að forvitnast um þetta allt saman.

„Hafnarfjörður verður alltaf minn heimabær og mér þykir rosalega vænt um hann. Það var einmitt í Hafnarfirði sem ég kom heim úr skólanum sem stelpa og settist við píanóið í Smyrlahrauni. Þar söng ég, spilaði, samdi lög og skemmti mér konunglega þar til aðrir heimilismeðlimir komu heim,“ segir Margrét og bætir við að hún muni sérstaklega eftir því hvað hún skammaðist sín mikið þegar aðrir krakkar úr hverfinu gengu framhjá og sáu hana eða heyrðu í henni. „Þá var ég fljót að beygja mig niður og fela mig,“ segir hún og hlær, enda er öldin önnur og hún er aldeilis ekki eins feimin við að tjá sköpun sína í tónlist.

Vill í dag að sem flestir komi og njóti

Margrét var við nám í Lækjarskóla og síðar Flensborg, en hún segir að þau ár hafi verið henni afar kær. „Ég áttaði mig um 16 ára aldur á því að ég vildi vinna við tónlist, en þá var samt svolítið í það að ég þorði að gera nokkuð fyrir framan aðra. Í dag er það aðeins öðruvísi og þegar ég spila á tónleikum þá vil helst að sem flestir komi og njóti.“

Margrét á listamannsnafnið Magnetosphere en það merkir segulsviðið sem umkringir plánetur í sólkerfinu okkar. „Tónlistin mín er seiðandi raftónlist og ég vil gjarnan reyna að búa til hrífandi hljóðheim fyrir áheyrandann. Textarnir fjalla um alls konar hluti, bæði dularfulla og raunsæa. Ég er að vinna að sólóplötu en eins og þetta er í dag gef ég bara eitt lag út í einu en lögin fá að lokum yfirheiti sem plata þegar þau eru öll komin út,“ segir Margrét að lokum.