Mér finnst nokkuð gaman að elda mat. Ég hef talsvert meiri trú á eigin færni í þeim efnum en raunverulega getu. Því fer best á því að aðrir sjái um fóðurgjöfina. Ég hef líka talsvert gaman af því að fjasa um pólitík, þar hef ég líka miklu meiri skoðanir en vit. Merkilegt nokk er hægt að tengja þessi tvö málefni saman næstu mánuði.

Brátt líður að kosningum. Og við fáum ekki einar heldur tvær og með stuttu millibili. Það þýðir að flokkarnir, sem nálgast það að verða fleiri en blokkir í Breiðholtinu, opna allir kosningaskrifstofu og flestir í miðbænum. Þar sitja punttilhafðir frambjóðendur og spangóla boðskapinn eins og amerískir trúheitir predikarar meðan þeir fylla á okkur alla vasa af bæklingum um boðskapinn.

En skítt með boðskapinn og loforðin pólitíska fjaseríið. Það sem gagnast okkur helst er bakkelsið. Öllu jöfnu er borð sem oftast er aftast í helgidóminum barmafullt af bakkelsi. Þeim sem geta olnbogað sig í gegnum loforðaflauminn hlotnast þar algerlega ókeypis kvöldmatur.

Ég mæli með því að rótera átinu á milli flokka, þannig fæst fjölbreyttasta fæðið sem mér skilst að sé aðal kenning næringafræðinga. Viðmótið sem maður fær er allajafna mjög gott þar sem allir vilja þeir koma sem best fyrir og þannig fæst einnig þessi fína næring fyrir sálina. Mér skilst að einn flokkurinn státi af verdensberömtum kökuskreytingarmeistara þannig að nú verða hinir að gyrða sig í brók.

Einn tveir og gó.

Mettið hungraðan lýðinn.

Ást og friður.

Tommi