Fjölskylduhátíðin Álfahátíð til styrktar Hugarafli verður haldin í Hellisgerði næstkomandi laugardag, 23. September, frá kl. 14 -17. Markmið með hátíðinni eru tilkomin vegna umræðu og frétta um geðheilbrigði í þjóðfélaginu undanfarnar vikur. 

„Við viljum með þessu vekja athygli á geðheilbrigði og vellíðan barna og unglinga. Boðið verður upp á uppbyggjandi dagskrá með vellíðan barna að leiðarljósi, eins og til dæmis barnanudd og barnaheilun,“ segir Tinna Bessadóttir, eigandi Litlu Álfabúðarinnar í Hellisgerði.  Tinna hefur staðið í ströngu að undirbúningnum ásamt Aldísi Þóru Bjarnadóttur, Alexöndru Eir Andrésdóttur, Andrési Má Heiðarssyni og Jóni Björgvini Björnssyni. Starfsemi Hugarafls verður sýnileg á meðan á dagskránni stendur. Fjölmargir skemmtikraftar hafa boðað komu sína og hljómsveitin Ylja spilar fyrir gesti. Aðgangur er ókeypis en fjáröflunin fer fram í sölu veitinga og varninga sem verða í boði.

Andlitsmálun, tásunudd og heilun

Dagskráin verður nokkurn vegin á þá leið að hátíðin byrjar með álfagöngu um garðinn með Sigurbjörgu Karlsdóttur sagnakonu (1000 kr á mann) og á sama tíma verður álfasögustund fyrir börnin þar sem sagan af Gunnhildi og Glóa eftir Guðrúnu Helgadóttur verður lesin. Álfaleit verður fyrir börnin um garðinn og glæsilegir vinningar verða í boði frá Hidden People Iceland og Litlu Álfabúðinnar. Benedikt búálfur kemur fá Álfheimum og skemmtir og Siggi sæti og Solla stirða koma frá Latabæ og taka nokkur lög. Húlladúlla verður á svæðinu og kennir börnum sirkuslistir, eins trúðurinn Singó sem mun skemmta gestum og gangandi. Andlitsmálun verður fyrir börn, tásunudd fyrir litlar þreyttar tær og Svava frá Tveimur stjörnum kynnir heilun fyrir börn.

Tinna býður alla velkomna og minnir gesti á að klæða sig eftir veðri og nýta bílastæðin hjá Firði verskunarmiðstöð.

 

 

Mynd af Tinnu: OBÞ

Aðrar myndir: Húlladúlla frá henni sjálfri. Tinna hannaði Álfahátíðarmyndina.