Selma Rún Bjarnadóttir var verðlaunuð sem dúx við útskrift Flensborgarskólans fyrir jól með einkunnina 9,37. Selma Rún elskar líffræði og sálfræði og stefnir í læknanám. Hún ætlar að nýta næstu mánuði í að vinna, búa sig undir inntökupróf í læknanám við HÍ og sinna dansi sem hún stundar einnig af kappi.

Selma Rún kláraði nám af náttúrubraut á þremur og hálfu ári. Hún segist ekki hafa verið í vandræðum með að ákveða braut í byrjun framhaldsskólagöngunnar. „Mér fannst skemmtilegast í líffræði og ég hafði snemma áhuga á einhverju á heilbrigðissviði. Ég ætlaði fyrst að taka þetta á fjórum árum en var svo búin með næstum alla áfangana og þá kom kapp í mig að klára til að geta einbeitt mér að undirbúningi fyrir inntökuprófið í læknisfræði í júní,“ segir Selma Rún, sem stefnir á að vinna með þeim undirbúningi auk þess að æfa dans hjá Listdansskóla Íslands. „Ég er í hálfu námi þar og fer svo í eina viku til Barcelona í mars „work shop“ með hópi frá skólanum. Það er lítil kynning á Listaháskólanum í Barcelona.“

Með skólameistara Flensborgar, Magnúsi Þorkelssyni. 

Alltaf átt gott með nám

Uppáhaldsfögin hennar voru allir líffræðiáfangarnir en einnig sálfræði og saga. „Ég tók nokkra auka sálfræðitíma. Ég hefði líklega aldrei pælt í því fyrr en á fyrsta ári í framhaldsskólanum hvað væri heillandi við læknanám, en svo komu tveir læknanemar með kynningu og heilluðu mig. Ég hef líka alltaf átt gott með nám og svona langt nám eins læknanám er hentar mér ágætlega,“ segir Selma Rún sem aðspurð viðurkennir að hún eigi sér nokkrar fyrirmyndir sem starfi sem læknar en einnig móður sína sem er lyfjafræðingur. „Mesta tilhlökkunin að komast vonandi í námið. Ég hef líka hugsað um að sækja um í slíku námi í Svíþjóð eða Danmörku ef ske kynni að ég kæmist ekki að í HÍ.“

Selma Rún talar að endingu vel um skólann sem hún var að útskrifast frá. „Flensborg er mjög góður skóli og andinn er góður þar, bæði meðal nemenda og starfsfólks. Mér leið alltaf vel þar. Ég kom úr í Víðistaðaskóla og þekkti því marga samnemendur þaðan.“

 

Forsíðumynd: OBÞ. 

Hin myndin er frá Flensborgarskóla.