53 þúsund bækur voru lesnar í fjórða lestrarátaki Ævars vísindamanns og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands dró fimm nöfn barna sem tekið höfðu þátt og munu verða persónur í æsispennandi ofurhetjubók sem kemur út í vor. Hafnfirðingurinn Einar Karl Kristinsson var einn þessara fimm og við heimsóttum hann.

Einar Karl er 8 ára nemandi í Öldutúnsskóla og las alls 24 bækur, en lágmarkið var að lesa þrjár. Þegar hann frétti af úrdrættinum sagði hann upphátt: „Heppnasti dagur lífs míns!“

Einar Karl segir að krakkarnir í skólanum hafi orðið hissa og að hann sé búinn að eignast nokkra nýja vini í kjölfarið. „Ævar sagði að ég mætti monta mig eins og ég vil!“ Bækur eftir Gunnar Helgason og Ævar vísindamann eru í mestu uppáhaldi. „Ég fékk bókina Þitt eigið ævintýri, eftir Ævar, í jólagjöf. Spennubækur eru skemmtilegastar því þá er maður svo spenntur að vita hvað gerist að maður getur ekki hætt að lesa,“ segir Einar Karl, en hann er nýfarinn að lesa bækur með söguþræði og gleymir sér fljótt þegar hann finnur áhugasvið sitt í þeim.

Langar að verða bakari

Einar Karl á yngri bróður sem heitir Benni og auk þess að lesa finnst honum einnig skemmtilegt að leika við litla bróður. Þá nota þeir tuskubangsa sem fótbolta innanhúss. Þá brotnar ekkert. „Ég er líka að æfa körfubolta með Haukum og læra á blokkflautu. Ég væri til í að læra á trommur og spila eins og pabbi. En mig langar núna að verða bakari þegar ég verð stór. Það var svo gaman að gera kryddbraut í heimilisfræði.“ Spurður um góð ráð til þeirra sem lesa þetta viðtal og langar að vera dugleg að lesa: „Bara halda áfram að lesa og vera dugleg við það!“

 

Mynd: OBÞ