Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að tíðin hefur verið óvenju rysjótt undanfarnar vikur þar sem lokanir á vegum og gular-, rauðar og appelsínugular veðurviðvaranir hafa verið nánast daglegt brauð. Lægðirnar halda áfram að raða sér upp yfir landinu og í vikunni er enn á ný von á slæmu veðri og ef spár rætast verður ekkert ferðaveður, eins og veðurfræðingar kalla það, um miðja vikuna. Af þessu tilefni ákvað blaðakona Fjarðarpóstsins að hafa samband við veðurfræðinginn Einar Sveinbjörnsson og spyrja hann út í veðurfræðina, veðuráhuga íslendinga og hvort blessað vorið sé ekki á næsta leytifari ekki að láta sjá sig.

Einar í bakgarði æskuheimilis síns við Miðvang 116. Þar sem snúrustaurarnir eru núna setti hann upp sína fyrstu veðurathugunarstöð 14 ára gamall. Hann setti upp blikkdós á snúrustaurinn (sem þá var úr trönum) og reiknaði út botnflöt hennar og hæð rigningarinnar sem kom í dósina og út frá því gat hann reiknað úrkomuna.

Sex ára nám í veðurfræði

Einar er borinn og barnfæddur í Hafnarfirði en hann bjó í bænum fram til tvítugs en er nú búsettur í Garðabæ. Áhuginn á veðurfæði og veðri yfir höfuð kviknaði snemma. „Í Norðurbænum í Hafnarfirði starfrækti ég mjög frumstæða veðurathuganarstöð þess tíma í kring um 1980.“ Í ljósi þess hve snemma veðuráhuginn kviknaði lá leið Einars í nám í veðurfræði. „Námið er um sex ár. Nú er hægt að stunda námið hér á landi að mestu, en áður aðeins erlendis,“ segir Einar.

Veturinn harðari en undanfarin ár

Eins og áður sagði hefur veturinn verið ansi rysjóttur en Einar segir að veturinn hafi verið harðari en við eigum að venjast. „Auk þess hefur hann verið kaldari. Við erum orðin svo vön mildari vetrum sem hafa verið ríkjandi frá aldamótum. Veturinn nú er þó ekkert óvenjulegur í samanburði við þá sem komu hér áður fyrr.“

Ein af fjölmörgum myndum eða myndskeiðum sem Einar birtir á Facebook síðu sinni til að fræða landann og ávallt fylgir með texti á mannamáli. Þetta er af greiningarkortum af síðunni Wetterzentrale.de.

Rauð viðvörun sjaldan gefin út

Seint á síðasta tók Veðurstofa Íslands í notkun nýtt viðvörunarkerfi þar sem litir voru notaðir til að tákna hættustig í veðri. Litirnir sem notast er við eru gulur, appelsínugulur og rauður. Einar segir að litaviðvarirnar geti hjálpað fólki að meta alvarleika viðvörunarinnar. „Gul er almenn og mest notuð. Getur raskað daglegu lífi fólks, færð getur spillst, það getur verið ísing á vegum eða stormur með rigningu. Rauð viðvörun er sjaldan gefin út og aðeins þegar veður verður hættulegt fólki og best að halda sig inni við,“ segi Einar.

Nýja viðvörunarkerfið sem Veðurstofan kynnti til leiks í október sl.

Skrykkjótt vorkoma

Þá er komið að spurningunni sem margir spyrja sig að þessa dagana. Hvenær má búast við vorinu? „Suðvestanlands fer að bera á vori fljótlega í apríl, stundum fyrr. En vorkoman er skrykkjótt og alltaf kólnar aftur. Mér finnst vera komið vor þegar sólin er farin að ylja manni á daginn, jafnvel þó enn sé gul jörð og frost á nóttunni.“

Dæmigerðar fræðslumyndir sem Einar setur á Facebook síðuna sína.

Ræða um veður og veðurútlit

Íslendingar fylgjast vel með veðrinu og hafa alltaf gert. Einar telur að það sé vegna þess að veðrið er stöðugt að breytast frá degi til dags. „Við eigum líka mikið undir veðri á öllum sviðum, síðustu árin ekki síst þar sem fólk er meira á ferðinni en áður var,“ segir Einar. Þá segir Einar að fólk stoppi hann oft á förnum vegi til að ræða veður og veðurútlit. „Ég hef alltaf gaman af því að spjalla um veðrið við áhugasamt fólk sem ég meira að segja þekki ekki til,“ segir Einar að lokum.

 

 Viðtal: Ágústa Arna Sigurdórsdóttir

 Myndir af Einari: Olga Björt.