Hjónin Þóra Hrönn Njálsdóttir og Sigurjón Pétursson búa í einstaklega fallegu húsi við Austurgötu sem smíðað var 1930 fyrir afa og ömmu Sigurjóns. Sigurjón er sonur Báru Sigurjónsdóttur heitinnar, einnar kunnustu kaupkonu landsins. Þóra Hrönn og Sigurjón eru ólík hjón en þó afar samstíga. Þau trúlofuðu sig 17. júní fyrir 45 árum, eftir 2 mánaða kynni og giftu sig svo 14. október sama ár. Hæfileikar þeirra blómstra í stærstu sameiginlegu áhugamálum þeirra, ljósmyndun og leiðsögumennsku.

Hjónin Sigurjón og Þóra Hrönn í bakgarði húss síns við Austugötu.

Sigurjón byrjaði mjög ungur að taka myndir. Faðir hans, Pétur Guðjónsson, var með umboð fyrir Nikon ljósmyndavörurnar. Sigurjón er m.a. menntaður sem ljósmyndari og leiðsögumaður og náði að smita Þóru Hrönn almennilega af þessum áhugasviðum fyrir 45 árum, þegar hann gaf henni myndavél í morgungjöf. „Á ferðalögum var Sigurjón alltaf að stoppa og taka myndir og smám saman kviknaði áhuginn hjá mér, enda er ég búin að vera með mjög góðan kennara og það er mikið talað um ljósmyndir á heimilinu,“ segir Þóra Hrönn og bætir við að hún sé svona „sirkabát“ manngerðin en hann meira „akkúrat“.

Stundum verður að brjóta reglurnar

„Hjá mér verður fókusinn alltaf á fullkomnun. Góðir ljósmyndarar hafa þessa tvo eiginleika: auga fyrir augnablikinu og auka fyrir uppbyggingunni,“ segir Sigurjón en Þóra Hrönn er fljót að grípa inn í: „En til þess að mynd verði spennandi verður maður stundum að brjóta reglurnar!“ Hún horfir stríðnislega til hans og hlær dátt. „Við rífumst hæfilega mikið yfir þessu.“ Sigurjón segir að í raun ætti fólk að gera miklu meira af því að taka góðar myndir af fólki því með því sé verið að segja sögu. „Þá togast á í mér þetta með að reyna að taka fullkomnar myndir og svo að hafa þær hornréttar eða í föstum ramma.“

Stofnaði Kraftlyftingasamband Íslands

Saman eiga Sigurjón og Þóra Hrönn fyrirtækið Phototours in Iceland ehf. og halda úti eigin ljósmyndasíðum, auk Facebook síðunnar Iceland Across America. „Ég stofnaði Kraftlyftingasamband Íslands innan ÍSÍ árið 2009 ásamt mörgu góðu fólki og var formaður þess þangað til í fyrra. Árið áður tók ég við embætti varaformanns alþjóða kraftlyftingasambandsins og er einnig formaður alþjóða lyfjanefndarinnar. Við förum vegna þeirrar vinnu minnar mikið á stórmót erlendis og þar tekur Þóra Hrönn myndir af keppendum og er meðlimur í fjölmiðlateymi sambandsins“ segir Sigurjón. Einnig hafa þau farið í langferðir í útlöndum á hjólum og birt myndir með leiðalýsingum frá þeim, m.a. á síðunni Facebook síðunni IcelandAcrossAmerica„ Við höfum hjólað frá Flórída til Kalíforníu og i annarri ferð frá Kanada að landamærum Mexíkó. Þá eru myndirnar bæði persónulegar og svo tökum við fínar fjallamyndir með og af öðru landslagi,“ segir Þóra Hrönn.

Sjá hlutina á ólíkan hátt

Sigurjón segir að þau séu þó ekki beint landslagsljósmyndarar þótt þau séu bæði mikil náttúrubörn. „Þóra Hrönn hefur t.d. tekið margar fuglamyndir og portrett myndir og ég hef bæði tekið fullt af landslagi og portrett. Svo hef ég einnig tekið myndir af fólki úti á götu, heimilislausu fólki í Reykjavík og myndir af íbúum á Sólheimum í Grímsnesi sem var mjög gefandi.“ Þóra Hrönn lýsir þeim hjónum þannig að þegar þau koma á fallegan stað sjái þau hann á ólíkan hátt og Sigurjón hafi kennt henni góðan grunn um form í ljósmyndun. „Það er grundvallarstarf kennara að undirbúa nemendur á vissan hátt en svo fara þeir út í lífið með þekkinguna og þróa sinn eigin stíl“ stingur hann inn í en Þóra Hrönn er fljót að svara hlæjandi: „Við gerum stundum grín að því að þegar ég tek myndir af fólki þá eru allir brosandi nema Sigurjón. Hann er að spá í hvað ég er að gera!“

 

Rjúpa við Dettifoss. Mynd: Sigurjón. 

Erlendir ferðamenn

Meðal þjónustu sem þau hjón bjóða upp á eru ljósmyndaferðir innanlands fyrir útlendinga. „Margt eldra fólk hefur bullandi áhuga á ljósmyndun en kann kannski ekki alveg tæknina. Sigurjón kennir þeim á hana og þau segja að ég sé skemmtanastjórinn. En ég hef líka verið að kenna fólki að taka og vinna myndir með þeirra eigin símum. Sigurjón hvetur fólk til að horfa aðeins niður fyrir sig á viðkomustöðum, ekki bara taka myndir af sömu túrista-kennileitunum,“ segir Þóra Hrönn og Sigurjón bætir við: „Ég sýni þeim hvernig góðar myndir eru teknar, uppbygging og slíkt, og síðan tekur hver og einn fyrir sig sínar myndir og við skoðum síðan sameiginlega árangurinn og það sem betur má fara. Einnig förum við með allt að fjóra farþega í lúxusferðir sem geta verið allt að vika til hálfur mánuður og við leiðbeinum þeim.“

Lundi á Ingólfshöfða. Mynd: Þóra Hrönn. 

Gáfu út ljósmyndabók

Saman hafa Þóra Hrönn og Sigurjón gefið út eina ljósmyndabók, Aðventa á fjöllum, þar sem þau sóttu innblástur í bókina Aðventu eftir rithöfundinn Gunnar Gunnarsson. Í framhaldinu urðu ljósmyndasýningar úr bókinni í Þjóðminjasafninu, á Skriðuklaustri, Húsavík, í Færeyjum, auk „slides“-sýninga víða um Evrópu. „Þetta ferli tók langan tíma, margar ferðir norður á Mývatnsöræfi og mikla eftirvinnslu. Og svo kostaði þetta líka sitt; gistingu, matur, flug og tíma okkar beggja,“ segir Sigurjón. Bókin var prentuð í 3000 eintökum og Salka gaf hana út. „Það er draumur margra að gefa út bók og þegar fólk er komið á okkar aldur þá sér maður ekki eftir því að borga aðeins með sér. Ég þarf stundum að passa að segja ekki allar hugmyndir mínar upphátt því Sigurjón er svo mikill framkvæmdamaður að hann kemur öllu í verk strax. Það sem þó skiptir máli er að okkur finnst gaman að gera það sem við erum að fást við. Við erum dugleg að láta drauma rætast og lifa lífinu,“ segir Þóra Hrönn.

Fálki í Mývatnssveit. Mynd: Þóra Hrönn. Fálkinn er til á púða hjá henni. Þau sem hafa áhuga á að kaupa slíkan, endilega hafið samband við hana. 

Kría í Arnarfirði. Mynd: Sigurjón. 

Phototours in Iceland á Facebook: https://www.facebook.com/phototoursiniceland.is/

 

Myndir af Þóru Hrönn og Sigurjóni: Olga Björt.