Fyrir nokkrum dögum sat ég fund um samgöngumál í Bæjarbíói. Þar var Reykjanesbrautin eðlilega aðalumræðuefnið enda hætturnar margar á þeim vegi. Það er í raun sérkennilegt að árið 2017 að við séum ekki komin lengra með þennan fjölfarna og hættulega veg.

Ríkisstjórn og þingflokkar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar samþykktu að leggja fram fjárlagafrumvarp þar sem ekki var gert ráð fyrir neinum fjármunum til brýnna framkvæmda við Reykjanesbraut.

Mikilvægt er að framkvæmdir við gatnamót Lækjargötu og Reykjanesbrautar hefjist  sem fyrst því sú “rúlletta” sem íbúar og aðrir ökumenn þurfa að upplifa þarna er óásættanleg enda eru líf í hættu á hverjum degi.

Sama má í raun segja um gatnamótin við Fjarðarhraun en þau þarf einnig að laga líkt og gert er ráð fyrir í áætlunum Vegagerðarinnar.

Vandamálin eru þekkt og á þau hefur verið bent árum saman af íbúum og sveitarstjórnarmönnum. Er fjármagn það sem vantar? Já, það vantar fjármagn til samgangna og nei það er til fjármagn en því er veitt í önnur verkefni.

Öll vitum við að einungis hluti skatttekna af bifreiðum (gjöld og skattar) rennur til samgangna. Er þá lausnin sú að leggja enn frekari skatt á bifreiðaeigendur með hækkun oliugjalds og etv. vegtollum?

Ég tel mikilvægt að farið sé vandlega yfir það hvort ekki sé unnt að skila því fé sem nú þegar er innheimt til samgöngubóta og hraða þeim.

Samgöngur þurfa að fylgja stækkun sveitarfélaganna. Við í Miðflokknum ætlum okkur að endurskipuleggja fjármálakerfið með það að markmiði að gera það hagkvæmara, lækka vexti og stöðva verðtryggingu. Þegar því verkefni verður lokið munu fleiri munu sjá sér hag í að byggja húsnæði til eignar eða leigu. Þannig mun íbúum halda áfram að fjölga og því fylgir aukin umferð bíla, hjólandi eða gangandi fólks og við því þarf að búast, ekki bregðast við eftirá.

 

Gunnar Bragi Sveinsson. Höfundur skipar fyrsta sæti lista Miðflokksins  X – M

í Suðvesturkjördæmi.

 

.