Kjötkompaní er sjö ára um þessar mundir og verður heljarinnar húllumhæ og fjöldi tilboða versluninni við Dalshraun um helgina. Þar starfa núna 30 manns og matreiðslumaðurinn og eigandinn Jón Örn Stefánsson segist hlakka á hverjum degi til að koma í vinnuna, enda séu verkefnin í senn krefjandi og skemmtileg og viðskiptavinir komi víða að.

Fjölskyldan er dugleg að fara erlendis og leita nýjunga og gæða fyrir viðskiptavini sína. 

Hvað hefur breyst hjá ykkur á þessum 8 árum?

Kjötkompaní hefur verið að þróast mjög mikið með hverju árinu sem líður og allt samkvæmt áætlun. Okkur langaði í byrjun að koma með skemmtilega og ferska lausn fyrir viðskiptavini sem miðaði að því að gera veisluhöld einföld og góð. 

Hvílíkar kræsingar í kjötborðinu. 

Hvers konar væntingar koma frá viðskiptavinum? Hvað er vinsælast hjá ykkur? 

Við leggjum mikla áherslu á gæði og góða þjónustu og viðskiptavinir okkar gera kröfur á okkur um halda okkar striki og vera sífellt að koma með eitthvað nýtt og spennandi. Það sem er vinsælast hjá okkur þessa stundina er okkar eina sanna Lambakonfekt og líka nautalundin De Luxe í trufflusveppa kryddleginum.

Hvernig gengur hin alrómaða veisluþjónusta ykkar?

Veisluþjónustan okkar er sífellt að vaxa, tilbúnu veislurnar okkar er mjög vinsælar þar sem allt er tilbúið. Einnig grillpakkarnir okkar en sennilega eru nú smáréttirnir okkar það vinsælasta í veislunum.

Hægt er að kaupa tilbúið álegg og meðlæti með hamborgurum. 

Hvaðan vitið þið til að viðskiptavinur hafi komið lengst að til að kaupa hjá ykkur? 

Það er mjög gaman að sjá að okkar viðskiptavinir koma úr öllum áttum af stór Reykjavíkursvæðinu. Við erum líka að senda út á land og einnig höfum við fengið pantanir frá útlöndum.

Hversu margir starfa hjá ykkur í dag? ​

Það eru um 30 manns á launaskrá hjá okkur þessa stundina.

Hvað er skemmtilegast og mest gefandið við að reka þetta fyrirtæki? 

Það er það að geta stöðugt verið að þróa eitthvað nýtt; nýjar kryddblöndur og nýjar útfærslur með kjöt og meðlæti. Við fáum svo viðbrögðin strax frá okkar góðu viðskiptavinum sem er mjög gaman. Við framleiðum mest allt sjálf af því sem við erum að selja sem hjálpar okkur að vera öðruvísi en aðrar verslanir. Þetta er akkúrat eins og þetta á að vera þegar maður hlakkar til á hverjum degi að mæta í vinnuna.

Hvað verður gert til að halda upp á afmælið?

Við verðum með glæsileg tilboð og fáum til okkar menn frá helsta trufflusveppafyrirtæki Ítala, ásamt einum virtasta „butcher“ í Toscana en hann ætlar að gera fyrir okkur gómsætar ítalskar pylsur ásamt því að verka íslenska lambalærið á ítalskan hátt. Það er mjög spennandi dæmi! Svo verður Júlladiskó að sjálfsögðu á staðnum.

Myndir: Olga Björt