Þórey Gunnarsdóttir er 36 ára, fædd árið 1981. Hún á tvö börn, strák sem er fæddur 2008 og stelpu fædda 2013. Þórey er förðunar-, nagla- og snyrtifræðingur og vinnur í Blue Lagoon Spa í Reykjavík. Þorey er Snappari vikunnar.

Ég hef búið í Hafnarfirði frá tveggja ára aldri og var fyrstu tvö grunnskólaárin í Víðisstaðaskóla en fór svo í Setbergsskóla og var þar fyrsta árið sem sá skóli starfaði. Það er nú gaman að segja frá því að minn bekkur vígði sveppinn í Suðurbæjarlaug. Ég og kærastinn minn erum núna á fullu í framkvæmdum á heimilinu og erum gjörsamlega að umturna íbúðinni svona rétt fyrir jól, eru það ekki alveg týpískir Íslendingar? Við búum í Norðurbænum og elskum þetta hverfi, svo barnvænt og frábært að vera hér.

 

Á snappinu mínu sýni ég lífið bara eins og það er, engin glansmynd ef svo má segja. Þegar ég sýni farðanir á snappinu þá gjörsamlega springur allt, sem mér finnst ótrúlega gaman. Ég er búin að halda uppi opnu snappi í rúmt ár núna og er með alveg frábæran fylgjendahóp. En ég er nú örugglega talin frekar gömul í þessum snappheimi haha. Ég er einnig bloggari hjá www.fagurkerar.is og finnst það svakalega gaman. Gott að geta skrifað færslur sem endast lengur en það sem maður setur inn á snappið sem hverfur eftir sólarhring.

Sú sem ég skora á næst er mér mjög kær frænka og vinkona hún Tinna Freysdóttir (tinnzy88).