Bergrún Íris. Mynd ÓMS. 

Hafnfirðingurinn Bergrún Íris Sævarsdóttir er afkastamikill teiknari og rithöfundur og hefur nú skrifað stórskemmtilega bók sem ber nafnið Elstur í bekknum. Bókin fjallar um Eyju, sex ára stelpu sem er mjög spennt að byrja í skóla. Bergrún Íris skrifaði bókina í Prag þar sem hún dvaldi fjarri fjölskyldunni í sex vikur.

Söguhetjunni gengur brösulega að kynnast krökkunum en vingast fljótt við undarlegasta bekkjarfélagann, hinn 96 ára gamla Rögnvald. Gamli kallinn neitar að fara út í frímínútur og harðneitar að læra að lesa og hefur því verið fastur í fyrsta bekk í 90 ár! Saman lenda vinirnir í skemmtilegum ævintýrum á meðan þau fylgjast að í gegnum skólaárið. Bergrún segir hugmyndina hafa kviknað fyrir mörgum árum.

Heyrði textann lesinn á tékknesku

„Ég teiknaði mynd af gömlum kalli sem passar ekki í barnahúsgögn í skólastofu og er með allt of langar lappir í rólurnar á skólalóðinni. Mér fannst hugmyndin skemmtileg en vissi ekki hvað yrði úr henni. Seinna fékk ég rithöfundagestadvöl í Prag og varði þar sex vikum án fjölskyldunnar við að skrifa bókina. Það var æðisleg reynsla og ég fékk að heyra textann minn lesinn af leikara á tékknesku fyrir framan áhorfendur sem var stórkostlegt. Þetta er í fyrsta sinn sem ég skrifa eitthvað lengra en myndabækur fyrir leikskólabörn,“ segir Bergrún.
Lestrarhvetjandi bók
Elstur í bekknum er ætluð 5-8 ára börnum og virkar eflaust mjög lestrarhvetjandi. „Læsi íslenskra barna fer hrakandi og íslenskan er í stórhættu ef við lesum ekki fyrir og með börnunum okkar. Það er nauðsynlegt að nota tungumálið ef það á að lifa af á jafn litlu málsvæði. Rögnvaldur gamli er með skrítinn og skemmtilegan orðaforða en það er rauði þráðurinn í öllum bókunum mínum; að auka orðaforða barnanna.“ Eyja og Rögnvaldur lendi vonandi í fleiri ævintýrum í framhaldsbók á næsta ári en þangað til geti lesendur hlegið og skemmt sér yfir fyrstu bókinni.

Eldri sonurinn fór með

Í mars var Bergrúnu boðið til Norður-Svíþjóðar þar sem hún heimsótti fjölda skóla og spjallaði við börn á öllum aldri um rithöfundastarfið og Ísland. „Sænsku börnunum finnst Ísland virkilega áhugavert og gaman að heyra íslensk orð. Sonur minn, 7 ára, kom með mér út og við ferðuðumst um þetta gullfallega svæði, alla leið upp til Kiruna í sænska Lapplandi.“

Bergrún Íris ásamt Darra Frey, eldri syni sínum.

 

 

Myndir frá Bergrúnu Írisi. Forsíðumynd af henni tók ÓMS.