Árið 1939 var hafist handa við að reisa Karmelklaustrið í Hafnarfirði en regla Karmelíta var stofnuð af krossförum á fjallinu helga árið 1156. Markmið reglunnar er m.a. að vaka yfir velferð þjóða og einstaklinga með fyrirbænum.

Stofnun reglunar á Íslandi má rekja til heimsóknar von Rossmus kardínála til Íslands árið 1929 í tilefni af vígslu Dómkirkjunnar í Reykjavík. Í kjölfarið færði Meulenberg biskup á Jófríðarstöðum reglunni lóð að gjöf undir klaustrið en stofnandi þess var móðir Elísabet sem kom frá klaustri Karmelsystra í Schiedam í Hollandi. Smíði klaustursins var að mestu lokið árið 1940 en þá komust systurnar ekki hingað til lands þar sem Holland var hernumið af Þjóðverjum. Þá var brugðið á það ráð að leigja bæði breska og bandaríska herliðinu í Hafnarfirði klaustrið fyrstu árin en í stríðslok hafðist heimilislaust fólk við þar. Var það því ekki fyrr en árið 1946 sem fyrstu nunnurnar fluttu í klaustrið en það var fullskipað ári síðar og innsiglað í kjölfarið að hætti reglunnar. Árið 1983 var starfseminni hætt tímabundið þar sem nunnurnar voru orðnar aldurhnignar og fluttu þær þá aftur til Hollands. Ári síðar hófst starfsemi þar á ný þegar 16 pólskar Karmelsystur fluttu í klaustrið.

Systurnar í Karmelklaustrinu hafa alla tíð unnið fyrir sér með handavinnu, sem þær selja í lítilli verslun sem rekin er í klaustrinu, með innrömmun og skrautskrift á bækur. Þá seldu þær egg og nutu góðs af gjöfum sem bárust frá hollvinum klaustursins.