…að krossmessa á hausti er 14. september? Þá er þess minnst að kross Krists hafi verið endurheimtur úr höndum heiðingja og hafinn upp í Jerúsalem árið 628. Hérlendis virðist þessi dagur aldrei hafa verið jafnoki krossmessu að vori 3. maí. Þó kemur fram að vistráðning hefur að einhverju leyti miðast við krossmessu að hausti enda heyskap þá vísast lokið. Í elstu heimildum um Jörfagleði í Haukadal er sagt að hún hafi staðið aðfaranótt krossmessu að hausti.

En hvað var nú Jörfagleði? Kaupafólk og jafnvel húsbændur áttu það til að gera sér sameiginlega glaðan dag þegar vistin var á enda. Víða voru þessar gleðisamkomur nefndar „kaupakonudansleikir“. Ýmsar heimildir eru til um þessar samkomur og er sú elsta um hina áðurnefndu gleði í Jörfa í Haukadal í Dalasýslu. Segir meðal annars í gömlum annálum svo: „Það var siðvenja forn að gleði var árlega á hverju hausti haldin í Jörfa í Haukadal. Voru við þessar gleðir hafðir í frammi margskonar skrípaleikir og óskikk. Ungt fólk karlar og konur, sem voru vinnuhjú, áskildu við vistráð að fá að fara til gleðinnar. Við þetta tækifæri kom saman svo mikill fjöldi ungra karla og kvenna að húsin rýmdu það ei, dró þá þetta unga fólk sig saman í útihús eða hvar annars staðar því sýndist og urðu þá mörg skyndibrullaup.“ Var talið að á einni slíkri samkomu hefðu komið 19 börn undir en það mun hafa verið í kringum aldamótin 1700.

Man ekki einhver lesandi, kannske allir, eftir samkomum með ýmsum nöfnum sem haldnar voru og eru víðs vegar um landið þar sem ungt fólk kom og kemur saman til að skemmta sér? Þetta skyldi þó ekki vera í blóðinu og unga fólkið hverju sinni aðeins að feta í fótspor forfeðranna? Kannske ættu hinir eldri í dag að líta í eigin barm og hætta að fjargviðrast eilíflega yfir unga fólkinu.