Sameiginlegir tónleikar Lúðrasveitar Hafnarfjarðar, skólakórs Flensborgarskólans og Flensborgarkórsins (útskrifaðir nemendur úr skólanum) verða haldnir í húsnæði Björgunarsveitar Hafnarfjarðar við Hvaleyrarbraut (gengið inn frá Lónsbraut) næstkomandi laugardag, 25. nóvember. Uppistaðan í tónleikunum er kvikmynda- og tölvuleikjatónlist. Einnig verða dálítill einkenni helgiblæs því það líður að aðventu.

Hópurinn eftir æfingu. Mynd: Sigurður Karlsson. 

„Við vorum síðast með tónleika saman fyrir nokkrum árum í Hörpu og þá voru kórarnir gestir lúðrasveitarinnar. Við höfum talað öðru hverju síðan um að láta verða af þessu,“ segir Rúnar Óskarsson, stjórnandi Lúðrasveitar Hafnarfjarðar. „Þetta er svo góð tilbreyting fyrir alla sem að þessu standa. Öðruvísi tónlist en hóparnir eru vanir að spila og syngja,“ segir Hrafnhildur Blomsterberg, stjórnandi kóranna tveggja og bætir við: „Ég er að stíga langt út fyrir þægindrammann því það hafa alltaf verið stórir árlegir jólatónleikar í desember.“ Hrafnhildur fann þennan óvenjulega tónleikastað, björgunarsveitarhúsið við Óseyrarbraut, eftir töluverða leit að hentugu húsnæði. Það er ekki hlaupið að nógu stórum sal sem hýsir alla 110 meðlimi lúðrasveitarinnar og kóranna, auk áhorfenda.

Vantar stærra tónlistarhús

„Það er ekkert tónlistarhús í bænum nógu stórt fyrir svona viðburð. Bærinn hefur ekki verið með í forgangi að huga að slíku. Hvert hringir maður ef mann vantar stóran tónleikasal? Jú, maður hringir í björgunarsveitina! Þar voru félagar boðnir og búnir að lána okkur salinn. Við vonum bara að það verði ekki útkall akkurat á meðan tónleikarnir standa yfir,“ segir Rúnar og þau Hrafnhildur hlæja dátt.

Tónleikarnir hefjast kl. 14 og verða um einn og hálfur tími með hléi. Hægt er að nálgast miða miða hjá kórfélögum og svo verður einnig selt við innganginn.

 

Aðsend mynd af hópnum tekin í Hörpu fyrir nokkrum árum.