Kristín Stefánsdóttir, snyrti- og förðunarmeistari býr við Móabarð hér í bæ ásamt fjölskyldu sinni og tengdafaðir hennar býr á neðri hæðinni. Fyrir 35 árum stofnaði Kristín fyrirtæki kennt við NO NAME snyrtivörurnar og er einna þekktust fyrir það, sem og förðunarskóla, námskeið, fyrirlestra og kynningar um allt land. Í dag rekur hún verslun, förðunarstúdíó og -skóla við Garðatorg. Persónulega þjónustan Fimm mínútna förðun er vinsæl því í henni leggur Kristín áherslu á svokallað „less is more“ til að draga fram það besta í hverri konu.  

„Ég er algjörlega A-týpan og þarf sífellt að vera að og ég hef rosalega mikla ánægju af því að miðla því sem ég kann. Ég opnaði förðunarstúdíó og -skóla hér við Garðatorg fyrir þremur árum síðan eftir að hafa rekið netverslun heiman frá mér í önnur þrjú ár. Ég hafði áður selt allan annan rekstur til að einbeita mér meira að fjölskyldunni. Ég naut þess tíma svo innilega,“ segir Kristín og er himinlifandi með móttökur sem hún hefur fengið á stuttum tíma. „Meðal þess sem fékk mig til að byrja aftur á fullu var að traustir viðskiptavinir söknuðu mín og snyrtivörulínunnar. Eftir að NO NAME vörurnar fóru í dreifingu í 30 verslanir Lyfju um allt land, bætti ég við vöruúrvali eins og fatnaði, skarti og annarri gjafavöru.“

Úr verslun Kristínar þar sem einnig er hægt að fá fatnað, fylgihluti og vinsælt er að setjast í stólinn hjá Kristínu og frá persónuleg ráð.

Farðar hálfu þorpin

Kristín hefur í tímans rás verið mjög vinsæl meðal hópa og kölluð til fyrir viðburði víða um land og hún segir það einna mest gefandi hluti starfs síns. „Ég er pöntuð af kvenfélögum, vinnuhópum og vinkvennahópum auk þess að farða stundum nánast hálfu þorpin fyrir þorrablót. Það er rosalega gaman og allur dagurinn tekinn undir og mikil gleði.“ Kristín leggur mikla áherslu á að draga fram það besta í hverri og einni konu sem hún fær í stólinn.  „Það ættu allar konur að kunna að farða sig því það er svo nauðsynlegt og það er svo gott að læra það á einfaldan hátt. Ég farða mig sjálf alltaf lítið. Konur þurfa ekki að horfa á ungar dætur sínar, sem eiga nánast heila snyrtivöruverslun í herberginu, læra að farða sig af Youtube og Snapchat og eiga 100 förðunarbursta, pallettur, „contora“ og „highlightera“. Það er ekki fyrir konur fertugar og eldri.“

Of mikil förðun felur

Á 35 árum hefur Kristín upplifað ýmis förðunartískuskeið og segir að hvert skeið eigi sinn sjarma þótt áherslur og litir séu mismikil. „Allt við förðun er skemmtilegt. Það bara skiptir máli að leggja ekki áherslu á að fela sig með of mikilli förðun. Það er slæma hliðin. Sjálfsmynd ungra kvenna verður ekki uppbyggð með því að farða sig daglega eins og verið sé að fara í forsíðumyndatöku. Ég er dálítið að berjast á gegn þessu og mömmur koma með dæturnar sínar með þykkt lag af meiki, dökkar og þykkar augabrúnir og gerviaugnhár. Margar klína á sig og sofna með allt á sér eða kaupa allt sem Snapparinn mælti með og enda með brunasár á húðinni.“

Hér er Harpa Lind Harðardóttir með kvöldförðun og eins og sést leggur Kristín áherslu á ‘smokey’ til að draga fram það besta. Rétt skygging skiptir einnig miklu máli og réttur litur á farða (meiki). 

Notar orðið skuggar í stað bauga

Kristín leggur einnig áherslu á mikilvægi þess að læra að hirða um húðina, vernda hana en leyfa henni jafnframt að sjá um sig sjálfa. „Maskar, kornakrem og annað slíkt á ekki að nota oft og mikið, sérstaklega á unga húð. En það er mjög mikilvægt að verja húðina gegn hitabreytingum, rykmengun, tölvuryki og sýklum sem safnast fyrir á fingrum. Þess vegna er mikilvægt að nota farða („meik“), því þar ver húðina.“ Sjálf er Kristín með rósroða en segist ekki hafa fengið þurrkubletti í andlitið í fjöldamörg ár. „Þar hjálpar farðinn og einnig skiptir máli að finna réttan lit á farða og prófa hann á andlit, ekki handabak. Hjá NO NAME er ég með eina tegund af farða og eina tegund af þrískiptum hyljara. Það þarf ekki meira.“ En þarf nauðsynlega að nota hyljara? „Allar konur eru með skugga, ég vil ekki nota orðið baugar, mismikla og þetta er ættgengt og fer einnig eftir hvernig við hugsum um okkur, lífsstíl og hvernig höfuðkúpan er í laginu. Örlítill hyljari í réttum tón á réttum stað getur skipt sköpum.“

Þjónusta og eftirfylgni

Í sama húsnæði og heildverslunin og förðunarstúdíóið rekur Kristín einnig alþjóðlegan förðunarskóla og þar býður hún upp á námskeið fyrir einstaklinga og hópa. „Ég kenni konum að draga úr á kaupum á snyrtivörum og láta ekki blekkjast. Þær þurfa ekki allt sem þær kaupa og ég bendi þeim á að kaupa frekar 30 þúsund króna leðurstígvél en að eyða slíkum fjármunum í krem. Þær fá meira út einu andlitsbaði en tveimur krukkum af kremi.“ Einnig er boðið upp á einkakennslu og persónulega þjónustu í tvo tíma. „Konur sem kannski hafa farðað sig eins í áratugi og vilja breyta til. Þær koma svo aftur eftir tvær vikur eftir að hafa æft sig heima og við rifjum upp í sameiningu. Sú eftirfylgni er hluti af þjónustunni.“

Kristín hefur unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín. 

Myndbönd og kvikmyndaförðun

Kristín hefur gert kennslumyndbönd og birt á Facebook síðu fyrirtækisins og þau hafa vakið lukku fyrir það að vera „filterslaus“. „Þar kem ég fram eins og ég er, farðalaus og sýni t.d. 5 mínútna förðun. Margar hafa þakkaði mér fyrir. Svo erum við með kvikmyndaförðunarnámskeið þar sem Sigríður Rósa (Walter Mitty, Latibær, Borgarleikhúsið) og Steinunn Þórðardóttir (Málmhaus, Edduverðlaun) kenna tvær helgar allt sem þarf að vita því það er mikil gróska í slíku fagi í dag vegna auglýsinga, myndbanda- og kvikmyndagerðar.“

En hvað er best við núið? „Aldurinn. Það er yndislegt að eldast þegar heilsan er góð. Forréttindi að fá að vinna við það sem ég elska og vera komin heim. Það er skemmtilegra en þegar ég byrjaði og það þakka ég þroskanum og aldrinum, ég er 53 ára. Jákvæðni og sjálfsvæntumþykja skiptir líka miklu máli og að vera sátt við sig eins og maður er,“ segir Kristín að lokum.

 

Myndir af Kristínu og verslun: OBÞ.

Fyrir og eftir myndir af Hörpu Lind: Kristín.