Sigríður Jóhannesdóttir er 91 árs og býr að Jófríðarstaðavegi 13. Hún var meðal þeirra Hafnfirðinga sem fengu viðurkenningu Snyrtileikans í lok síðasta mánaðar, enda er garðurinn hennar afar stór og fallegur. Sigríður hefur áður fengið slíka viðurkenningu árin 1987 og 2002 og einnig var Jófríðarstaðavegur valinn stjörnugata árið 1999. Sigríður ákvað að mæta og taka við viðurkenningunni í ár vegna þess að þann dag voru 13 ár síðan eiginmaður hennar, Sigurður Jónsson, lést.

Sigríður í garðinum sínum í síðasta mánuði.

13 hefur alla tíð verið happatala fjölskyldu Sigríðar og hún segir stærstu ákvarðanir meira og minna hafa verið teknar mánudaginn 13. „Við Sigurður áttum þetta allt skrifað og tókum eftir því eftir á,“ segir Sigríður, en hún og Sigurður heitinn, rótgrónir Hafnfirðingar, fluttu til Hafnarfjarðar 1962 eftir að hafa búið úti á landi í tengslum við atvinnu hans. „Við fluttum til Djúpavíkur þegar við höfðum verið gift í mánuð. Sigurður gerðist yfirverkstjóri hjá Síldarverksmiðjunum í fjögur ár og á Djúpavík eignuðumst við börnin okkar tvö. Svo lá leiðin til Írafoss í 9 ár og síðan til Keflavíkur þar sem dóttir okkar fór í unglingaskóla og Sigurður tók við rekstri Síldarverksmiðjunnar.“ Sigríður rak síðar vefnaðarvöruverslunina Seymu í Reykjavík í 30 ár, við Aðalstræti, Hafnarstræti og síðast á Laugavegi 79. Einnig áttu þau hjón fyrirtækið Pappír hér í Hafnarfirði sem sonur þeirra rekur enn í dag.

Fjöldi álfasteina er í garðinum sem Sigríður hefur aldrei viljað hreyfa við.

„Við malbikum bara allt helvítis draslið!“

Bæði börn þeirra hjóna völdu að hefja búskap í Hafnarfirði og árið 1976 keyptu Sigríður og Sigurður fokhelt húsið við Jófríðarstaðarveg 13. „Við gerðum eins og fílarnir, komum aftur heim til að deyja þar,“ segir Sigríður í gamansömum tón. Þegar þau mættu til að skoða húsið hélt Sigríður á ömmusyni sínum og steig á planka með nagla í sem fór í gegnum ristina á henni og var ekið beint á slysavarðsstofuna. „Við náðum því ekki að skoða húsið betur en fengum sendar teikningar af því og ákváðum svo að kaupa það. Fall er fararheill!“ segir Sigríður og bætir við að þegar Sigurður sá hversu stór lóðin var, hafi hann sagt: „Við malbikum bara allt helvítis draslið!“

Gríðarlega fallega klippt trén.

Afskornar rósir í uppáhaldi

Ekki varð úr því vegna þess að sumarið eftir fór Sigríður út á lóðina og byrjaði á garðyrkjunni. Sigurður fylgdi frumkvæði konu sinnar og þá var ekki aftur snúið. Mikið holtagrjót var í garðinum sem Sigurður ætlaði að láta færa til en Sigríður tók það ekki í mál. „Við hreinsuðum bara til og lögðum stétt. Gerðum þetta með haka og allt í höndum. Dóttir mín og börn hennar komu oft um helgar og hjálpuðu til. Nágrannar okkar voru með samliggjandi garð með okkur og við fengum sameiginlega fyrstu viðurkenninguna 1982 fyrir þann garð.“ Spurð um uppáhalds jurtir segist Sigríður elska rósir sem afskorin blóm, sérstaklega kampavínslituð. „Mér hefur alla tíð líka þótt animóníur afar fallegar, sérstaklega eftir að ég eignaðist málverk af animóíum. Líka stjúpmæður. Þær finnst mér eiga að tilheyra í öllum görðum. Birki er að mínu mati fallegasta trjátegundin.“

Það eru ekki allir sem eru með hluta álfaklöpp inni í húsi sínu! Þessi mynd er tekin á jarðhæðinni, þar sem hluti hússins var byggður í kringum klöppina.

Tók á móti greiðslum í Hellisgerði

Talið berst að umhirðu garða og að mati Sigríðar mætti fólk gjarnan gefa sér meiri tíma í að klippa, snyrta og þrífa garða sína. „Það er það sem gefur því gildi að eiga garð og geta mótað hann. Ég var alin upp við fallegan garð foreldra minna við Vesturbraut og þau áttu einnig fallega jörð í Sléttuhlíð. Þau voru líka miklir mannvinir. 15 ára vann ég í Hellisgerði hjá Ingvari Gunnarssyni, m.a. við að taka á móti greiðslum frá þeim sem komu í garðinn. Ég gróðursetti meira að segja elstu grenitrén í Hellisgerði,“ segir Sigríður og brosir þegar hún rifjar þetta upp. „Ég hafði það afskaplega gott sem barn og unglingur. Var í sveit hjá ömmubróður mínum í Hvalsnesi og sótti mikið í sveitina. Útiveran gerir manni líka gott. Það er hvíld að fara út í garð og þreifa á moldinni og grasinu, setjast eða leggjast í grasið og horfa upp í himininn eða loka augunum. Að vera ein með sjálfri mér og njóta þess hlusta á náttúruna,“ segir hún afar sannfærandi að lokum.

Myndir OBÞ