Fimmtudaginn 20. desember brautskráðust 72 stúdentar frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði. Nemendur brautskráðust af félagsvísinda- raunvísinda-, viðskiptafræði- og opinni námsbraut. Tólf þessara nemenda voru á íþróttaafrekssviði. Dúx var Alexandra Líf Arnarsdóttir, með 9,1 í meðaleinkunn.

Dúx var Alexandra Líf Arnarsdóttir, með 9,1 í meðaleinkunn.

Kór skólans söng við athöfnina, undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg. Að auki sungu þrjár nýstúdínur tvö lög og fengu leynigest með sér, aðstoðarskólameistarann sjálfan. Í ávörpum sínum lögðu skólameistari og aðstoðarskólameistari áherslu á að stúdentarnir veldu sér ábyrgar og góðar leiðir en jafnframt að þetta unga fólk léti hjartað ráða för.

Kolbeinn Sveinsson ávarpaði samkomuna fyrir hönd nýstúdenta og tilkynnti m.a. að peningum hefði verið safnað til að færa Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Við athöfnina var afhentur styrkur úr Fræðslusjóði Jóns Þórarinssonar en hann hlaut Þorsteinn Kristinsson sem stundar nám í Lundi í Svíþjóð.  Þorsteinn Kristinsson stundaði nám við Flensborgarskólann í Hafnarfirði á árunum 2004 til 2008 og útskrifaðist með stúdentspróf á félagsfræði- og náttúfræðibraut. Síðan þá hefur Þorsteinn lokið BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MSc námi í Asíufræðum frá Lundarháskóla í Svíþjóð, auk þess að nema kínversku við National Taiwan Normal University í Taívan.

Við athöfnina var afhentur styrkur úr Fræðslusjóði Jóns Þórarinssonar en hann hlaut Þorsteinn Kristinsson sem stundar nám í Lundi í Svíþjóð.

Þá hefur Þorsteinn einnig stundað rannsóknir í alþjóðastjórnmálum við Háskóla Íslands og kom hluti þeirrar vinnu nýlega út í formi bókar um alþjóðastjórnmálafræðikenningar smáríkja þar sem Þorsteinn er meðhöfundur að þremur köflum. Sú bók nefnist Small States and Shelter Theory: Iceland‘s External Affairs og er gefin út af Routledge útgáfunni.

Síðustu tvö ár hefur Þorsteinn lagt stund á doktorsnám í alþjóðastjórnmálum við stjórnmálafræðideild Lundarháskóla, með sérstaka áherslu á „rísandi veldi“ í alþjóðakerfinu og svæðissamruna í Austur Asíu. Sem hluta af þeim rannsóknum mun Þorsteinn halda til Taívan í byrjun árs 2019 og dvelja sem gestafræðimaður við National Taiwan University í Taipei. Til þessa verkefnis hlaut hann svokallaðan „Taiwan Fellowship“ frá utanríkisráðuneyti Taívan sem er ætlað að veita erlendu fræðafólki brautargengi til slíkra dvala.

Allur hópurinn, sannarlega glæsilegur og framtíðin björt.

Kaflar úr ávörpum skólameistara:

I.

Að þessu sinni erum við að útskrifa nær eingöngu nemendur sem fara í gegn á nýju kerfi. Þau eru fjögur sem ljúka samkvæmt gamla kerfinu en þau hafa öll góðar ástæður því þau voru að vinna svo margt  annað samhliða náminu. En komust hingað samt fyrir eigin elju og vilja.

Það er fróðlegt að skoða hvernig hin breytta námsskipan, sem oftast er nefnd þriggja ára stúdentspróf, hefur þróast. Hér var fjölmargt endurskoðað, en því skal ekki neitað að sumt hélt stöðu sinni vegna þess hve mikilvægt okkur þótti það vera.

En það hafa einnig orðið til áfangar sem eru í sjálfu sér þverfaglegir eða samþættir eins og það hét í eina tíð. Þannig er áfangi í ritun, sem er vissulega íslenskuáfangi en nemendur velja sér  efni til rannsókna, hver og einn, sem geta verið heilsufarstengd, stjórnmálaleg, bókmenntatengd, persónutengd. Annar slíkur er kynjafræðiáfangi en í honum þurfa nemendur að leita upplýsinga á mörgum tungumálum, nýta sér tölfræði og túlka hana en síðast og ekki síst að tjá sig á íslensku. Þriðji sem ég vil nefna (en gæti nefnt fleiri) er umhverfisfræðin sem kallar á mikla heimildaleit og úrvinnslu, jafnvel eigin rannsóknir, túlkun og framsetningu á íslensku. Svona er nám gefandi því þá er nemandinn ekki einungis að vinna innan eins fags heldur að tengja saman margar vísindagreinar og læra að nota þær eins og vísindamenn gera.

En aðeins um skólastarfið. Þessi önn var að mörgu leyti keimlík öðrum. Skólastarfið hófst upp úr miðjum ágúst. Þar var undirbúningur, ferð með nýnema sem nemendaforystan stóð fyrir, og vel heppnaður dansleikur. Annar slíkur var haldinn í nóvember auk þess sem þau stóðu fyrir þematengdum vikum.

Almennt verður ekki annað sagt um forystuna en að hún hafi staðið sig vel, raunar mjög vel. Fjármál þeirra hafa verið í öflugum farvegi, viðburðir vel skipulagðir og vilji til að standa sig vel. Við höfum tekist á. Og ég vona bara að ungt fólk hætti ekki að ýta á eftir breytingum, kalla eftir réttlæti og rétti sínum. Þau mega líka stundum muna eftir skyldum sínum og ábyrgð og þar kemur leiðsögn okkar til skjalanna.

Flensborgarhlaupið tókst vel en við fórum nýja leið frá íþróttahúsinu við Strandgötu og í áttina að Bessastöðum. Veðrið var yndisfagurt, hlauparar glaðir og margir sem lögðu hönd á plóg. Okkur tókst að veita veglegan styrk til félagsins Hugrúnar en það eru nemendur í læknisfræði, hjúkrun og sálfræði sem reka það og fara milli skóla með fræðslu um geðheilbrigðismál. Frá upphafi hefur verið safnað á þriðju milljón til málefna tengdum ungu fólki. Sem er athyglisvert því þetta var áttunda hlaupið og sjöunda góðgerðarhlaupið og fyrsti styrkurinn var 35 þúsund krónur og sá næsti um 70 þúsund krónur.

Flensborgardeginum vörðum við í að fjalla um jafnrétti. Jafnréttisnefnd skólans setti upp óskalista. Þau vildu fá forsetann, bæjarstjórann, þingmann, Pál Óskar og Reykjavíkurdætur. Mér þótti fínt að þau næðu einu þeirra en að auki átti að koma hingað fulltrúi frá félaginu Hugrún. Það fór svo að baráttuglaðir jafnréttisnefndarmenn fengu alla ofangreinda. Forseti Íslands kom, bæjarstjórinn kom, formaður velferðar- og jafnréttisnefndar alþingis kom sem og Páll Óskar og Reykjavíkurdætur. Fullt hús af gestum og nemendum og umræðan um jafnréttismál skilaði þykkum fundargerðum sem lýsti hugmyndum þeirra vel. Úr þeim vinnur skólaráð tillögur sem verða kynntar í janúar. Frábær dagur í tveimur orðum sagt.

Til viðbótar mætti rekja eitt og annað um kennsluna og önnur störf.

Það er til sú hugsun að það þurfi þorp til að ala upp barn. Við erum vissulega hluti þessa þorps, öll sem eitt. Það sem helst ruglar okkur í ríminu þorpsbúana eru þessir spennandi tímar sem við lifum á. Með orðinu spennandi er átt við flóknir og jafnvel misvísandi. Við erum að fást við fjölmargar nýungar sem við vitum ekki alveg hvað merkja eða hvernig við eigum að bregðast við. Meðan sum okkar eru fíkin í þær þá eru aðrir á hlaupum undan þeim.

Við erum í þessari vinnu og verðum að ljúka henni – og vinna saman að því.

II

Fyrir um áratug hófum við samstarf við Embætti landlæknis um verkefnið Heilsueflandi framhaldsskóli. Margir höfðu efasemdir um það en annað hefur komið í ljós og verkefnið hefur leitt okkur á nýjar brautir. Síðan þá hafa nær allir framhaldsskólar bæst í hópinn, sveitarfélög hafa tekið þetta verkefni til sín undir hugtakinu Heilsueflandi samfélag og þannig hafa grunnskólar og leikskólar bæst við líka. Og nú er verið að tala um Heilsueflandi vinnustaði. Verkefnið hefur heldur betur blómstrað.

Margt hefur breyst í verklagi okkar og við tölum um menntun til farsældar, að kenna nemendum okkar núvitund og fleira mikilvægt. Þetta er meðal annars hluti af þeirri baráttu sem Landlæknir hefur talað um, að berjast gegn kvíða og fleiri vágestum. Sama barátta er hafin í skóla- og heilbrigðiskerfum nærliggjandi landa.

Við tölum um menntun til farsældar. Það þýðir að við reynum að byggja upp góðan og hollan starfsanda, skuldbindingu og námsvilja.

Við viljum enda skila af okkur góðu fólki. Fólki sem veit að það hefur hlutverk, það ber ábyrgð og að það getur látið gott af sér leiða. Og þessi hópur hefur tekið þátt í slíku á marga vegu, eins og ég mun víkja að síðar.

Það að vera Flensborgari er að vera hluti af stóru samfélagi fólks sem er að finna á öllum stigum samfélagsins, heima og erlendis.

III

72 útskriftarnemar

48 konur og 24 karlar – konur tveir þriðju hópsins

Þau skiptast þannig á brautir:

Af félagsvísindabrautum útskrifast 16, þar af tveir af íþróttaafrekssviði.

Af opinni námsbraut útskrifast 30 þar af 2 af íþróttaafrekssviði.

Af Raunvísindabraut útskrifast 14 og þar af 4 af íþróttaafrekssviði.

Af Viðskipta- og hagfræðibraut útskrifast 12 og þar af 4 af íþróttaafrekssviði.

Dúxinn í hópnum er Alexandra Líf Arnarsdóttir með 9,1 í meðaleinkunn.

IV

Ég þakka ykkur öllum sem hér eruð, samveruna í dag, gestum sem tengjast þessari útskrift,  raunar ykkur öllum sem hafið verið hluti af starfi okkar um lengri eða skemmri tíma.

Það er mér mikilvægt að fá að þakka samstarfsfólki mínu öllu. Þessi hópur er eins og smurð vél. Sérstaklega vil ég þó þakka þeim vaska hópi sem kemur að undirbúningi útskriftarinnar. Steinþór umsjónarmaður, þær í eldhúsinu, kennslu- og námsráðgjafarnir og síðast en ekki síst flokkurinn upp á skrifstofugangi sem bjargar öllu sem þarf. Sá liðsandi sem í þessum hópi er að finna verður aldrei útskýrður eða fullþakkaður.

Samstarfsfólkið allt og krakkarnir gera það að verkum að manni leiðist aldrei í vinnunni.

Ég þakka Daníel Scheving Hallgrímssyni formanni skólanefndar fyrir hans innlegg og traust samstarf og svo óska ég honum Stenna, Þorsteini Kristinssyni til lukku með styrkinn. Þess má geta að pabbi hans og bróðir eru einnig stúdentar héðan og pabbi hans er líklega að klára útskriftina í FG þar sem hann er skólameistari. Þær söngstúlkur og Erla fá þakkir fyrir óvænta uppákomu. Stúdínurnar þrjár, Kamilla, Thelma og Elsa léku lykilhlutverk í leikverkum síðustu ára, einu eða fleirum.

V

Þið að kveðja og eins og ég sagði við ykkur í ágúst þá var stutt í jólin. Nú eruð þið hluti af fjölmennu samfélagi útskrifaðra Flensborgara, og þeir hafa farið víða um heiminn. Þið sáuð dæmi um það þegar styrkurinn var veittur.

Þið eruð heldur betur búin að upplifa margt á leið ykkar að þessu marki. Fjölþættir áfangar og námsgreinar, s.s. hámarkið með sinni núvitund, leiðtogaþjálfun, umhverfisfræðin, fjármálalæsi, kynjafræði og allar hinar námsgreinarnar. Þið hafið tekið þátt í að rækta upp land við Krýsuvík og nágrenni, örfoka mela sem eru nú grónir að verða. Þið hafið tekið þátt í félagslífi skólans, kórnum, leiklistinni, Gettu betur, Leiktu betur og Morfís svo nokkuð sé nefnt. Öll hafið þið reynslu af flestu þessu en ekki allir af öllu. Þið hafið líka þroskast í samskiptum ykkar, við hvort annað og okkur hin. Við veitum upplýsingar. Vandinn við upplýsingar er að þær flæða yfir samfélagið eins og syndaflóðið. Það er bara ekki nóg að vita hlutina eða gúgla þá. Við gerum flest margt sem við vitum að eru ekki góðir. Ökum hratt og snæðum óhollt.  Við þurfum að breyta hugsun okkar til að breyta hegðun okkar.

Þið hafið sett svip ykkar á skólann og þegar þið nú kveðjið þá bíður ykkar heimur fullur tækifæra og sóknarmöguleika. Og hann getið þið lagt að fótum ykkar ef þið viljið. Við fylgjumst með því og við geymum minningar um ykkur.

Ég hef afskaplega gaman af því að nota vel orðaðar hugsanir sem ég rekst á á leið minni. Picasso, málarinn mikli sagðist t.d. iðullega vinna verkefni sem hann kynni ekki að leysa til þess að læra hvernig ætti að vinna þau. Ég segi ekki að ég vilji að þið beitið þessari hugsun á hvaða starf sem er, t.d. ekki flugstjórn eða skurðlækningar, en hugmyndin er góð.

Og Einstein sagði að stærsta atriðið í lífinu væri að varðveita efann, að spyrja.

Þið getið seilst til ábyrgðar eða frægðar ef þið kjósið. Einstaklingar í þessum hópi geta verið lykilmenn í íþróttaliðum, skapandi listamenn, læknar og lögfræðingar, sagnfræðingar og kennarar. En munið það að eftir því sem vegsemd ykkar verður meiri þá eykst ábyrgð ykkar. Gjald mikilfengleikans er það að sýna ábyrgð, sagði Winston Churchill. Ég skora á ykkur að fara fram af óttaleysi við nýjar áskoranir, að gleyma aldrei að spyrja hvert sé markmiðið og muna að ábyrgð fylgir okkur öllum hvar sem við förum.

En fyrst og síðast. Ekki gleyma stóru málunum. Þó Brexit, Klaustur og Trump skipti máli, þurfum við að taka á umhverfinu og taka ábyrgð á samfélaginu okkar. Og það nær víðar en til Íslands.

Það er máski vegarnesti mitt til ykkar. Í þessum undarlega heimi átaka um öryggi og umhverfi veitir okkur ekki af því að efla eigin jafnvægi, umhyggju fyrir umhverfi okkar og fólkinu sem þar er að finna, að byggja upp jákvætt hugarfar og lausnarmiðaða skapandi hugsun.

Nú er valið ykkar. Veljið með hliðsjón af væntingum ykkar, þess sem hjartað segir ykkur og munið að við verðum aldrei fullnuma. Þess vegna leitum við áfram að því sem bætir líf okkar, en ekki síður líf annarra. Það er gaman að breyta heiminum, krefjandi, tekur tíma, en gaman.

Farnist ykkur vel, kíkið við og leyfið okkur, sem eftir sitjum, að heyra af ykkur.

Framtíðina eigið þið. Vegurinn sem þið farið er ykkar vegur. Hann getið þið gengið með öðrum en aðrir ganga hann ekki fyrir ykkur.