Leikmyndahönnuður þáttaraðanna Ófærðar, Þórunn Sveinsdóttir, leitaði í smiðju hafnfirska myndlistarmannsins Kristbergs Ó. Péturssonar til að ná fram viðeigandi stemningu í leikmynd fyrir þættina. Þrjá myndir Kristbergs munu prýða veggi lögreglustöðvarinnar og yfirheyrsluherbergis í þáttunum. Fjarðarpósturinn hitti Kristberg í Læk við Hörðuvelli, þar sem hann kennir myndlist einu sinni í viku.  

„Ég kem hingað sem verktaki og kenni frá klukkan eitt til þrjú. Ég er þó alltaf mættur klukkan hálf tólf til að borða með þeim hádegismat og fæ mér svo kaffi og spjalla við þau sem hér eru. Hér er mjög góður matur, ljúfur andi og gott fólk,“ segir Kristbergur sem greinilega nýtur félagsskaparins, en Lækur er samstarfsverkefni Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins, Hafnarfjarðarbæjar og Svæðisskrifstofu Reykjaness um málefni fatlaðra.

„Það er mjög gefandi að eiga þessar samverustundir. Hér er mikið hlegið og sagðir brandarar. Starfið hér gengur mikið út á það að gott sé að koma hingað, staðurinn aðlaðandi og að öllum líði vel hér.“

Öll reynsla kemur fram í sköpun

Kristbergur kennir undirstöðuatriði eins og að teikna og blanda liti. „Svo förum við í að hugsa um myndefnið, hvort það er eitthvað sérstakt sem fólk langar að mála. Ef það eru hugmyndir frá þeim þá leggjum við áherslu að láta þeirra ljós skína og vinnum sem mest úr því. Ég leiði þau áfram yfir þröskulda og hjálpa.“ Spurður um leynda hæfileika nemendanna segir Kristbergur stoltur að á Læk séu margir efnilegir meistarar eins og víðar, á öllum skapandi sviðum. „Það er allur gangur á hvers konar sköpun á sér stað. Öll reynsla fólks úr lífinu kemur fram í því sem það skapar á einn eða annan hátt. Það er alltaf einhver þráður í tilverunni sem slitnar ekki alveg. Þegar við rifjum upp minningar og segjum frá eða skrifum, þá gerist svipað þegar við málum og teiknum. Okkar innri maður getur birst í litanotkun, ýmist björtum og hreinum eða dökkum, köldum og jarðtengdari litum.“

Pössuðu í leikmyndina

Talandi um litanotkun, þá eru verkin þrjú sem framleiðendur Ófærðar fengu að láni, einmitt í þessum köldu, dökku og jarðtengdu litum. „Myndirnar bara passa inn í leikmyndina. Þórunn sagði við mig að þau vildu fá dimma og hrollkalda tóna. Við vorum samnemendur í Myndlistar- og handíðaskólanum í gamla daga,“ segir Kristbergur og bætir við að hann hafi einnig átt þrjár myndir í fyrri þáttaröðinni. Myndirnar verða á skrifstofunni hjá lögreglunni og sennilega líka í yfirheyrsluherberginu. „Í fyrri þáttaröðinni var einn maður í losti í yfirheyrslu sem gat ekki talað og myndin mín blasti við allan tímann fyrir aftan hann. Mér finnst gaman af þessu og að sjá nafnið mitt í kreditlistanum. Þetta er heiður, ánægja og smá athygli. En hvort það muni hafa áhrif á sölu verka minna verður bara að koma í ljós. Þetta er kannski skref í þá átt.“

Kristbergur hefur í tímans rás haldið fjölda einkasýninga, samsýninga hérlendis sem erlendis og verið með gestavinnustofur, auk þess að sinna kennslu og félags- og trúnaðarstörfum.  Fimm verka hans eru í eigum listasafna safna hér á landi og í Þrándheimi. Kristbergur er með vinnustofu í Garðabæ og var með samsýningu 24. janúar til 4. febrúar í ARTgalley GÁTT í Kópavogi.

 

Forsíðumynd af Kristbergi: Olga Björt. Þar er hann staddur í kennsluherbergi hjá Læk við Hörðuvelli. 

Hinar myndirnar eru af verkunum sem hann lánaði í Ófærð.