Lagahöfundarnir Jelena Ciric og Marteinn Sindri Jónsson halda tónleika í Fríkirkjunni í Hafnarfirði með áherslu á ferðir og fjölmenningu föstudaginn 30. nóvember kl. 20:00. Sérstakur gestur á tónleikunum er Daníel Friðrik Böðvarsson á gítar. Tónleikarnir eru styrktir af Hafnarfjarðarbæ og aðgangur er ókeypis.

Það að sýna á sér fararsnið merkir að undirbúa brottför, leggja upp í nýtt ferðalag, en þó má vel hugsa sér að orðið merki jafnframt eitthvað svipað og ferðalag – snið er sú mynd sem förin tekur á sig. „Fararsnið“ heita tónleikarnir sem tónlistarfólkið Jelena Ciric og Marteinn Sindri Jónsson halda í Fríkirkjunni í Hafnarfirði á föstudag. Lögin á efnisskránni eru frumsamin og snúast um ferðir með ýmsu sniði.

Jelena og Marteinn hafa búið í samtals sjö löndum og hefur sú reynsla þeirra haft djúpstæð áhrif á tónlist hvors um sig. Þau segja að hvort sem ferðast er um höf og lönd, í huganum eða í hjartanu, hafa slíkar ferðir ætíð einhverjar umbreytingar í för með sér.

Jelena fæddist í Serbíu, ólst upp í Kanada, og bjó í Mexíkó og Spáni áður en hún fluttist til Íslands árið 2016. „Að semja lög er fyrir mig ein leið til að skapa heimili – og kannski líka skilja sjálfa mig betur og hvernig ég passa inn í umhverfið mitt.“

Marteinn Sindri fæddist á Íslandi en varði fyrstu æviárunum í Amherst í Massachusettsfylki í Bandaríkjunum. Auk þess að ala manninn á Íslandi hefur hann búið í Berlín í Þýskalandi þar sem hann lagði stund á heimspekinám. Áhrifavaldar Marteins í tónlist koma úr öllum áttum. „Mínar tónsmíðar standa styrkum fótum í íslenskri bókmenntahefð og alþýðutónlist en er einnig fléttaðar saman við goðsagnaminni, popptónlist og sálmasöng,“ segir hann.

Auk tónleikanna munu Marteinn og Jelena halda vinnustofur fyrir hóp barna frá Lækjarskóla, ásamt því að leika tónlist sína fyrir leikskóla og elliheimili í Hafnarfirði. „Ég tel að merking laga okkar, með áherslu á ferðalög og fjölmenningu, sé mikilvæg. Okkur langaði til að koma henni fyrir augu og eyru sem flestra,“ segir Jelena. „Þar sem það er svo stutt í jólin, þá munum við nota jólalög til að kanna það sem mismunandi menningarheimar eiga sameiginlegt,“ segir Marteinn.

Facebook viðburður

Tóndæmi:

Jelena:

Marteinn Sindri: