Flensborgarkórinn ætlar að halda tónleika með sænska kórnum Capella Snöstorp laugardaginn 28. apríl klukkan 16:00 í Hamarssal Flensborgarskólans. Við ræddum stuttlega við Arnar Frey Kristinsson, formann Flensborgarkórsins, um þetta.

„Við kynntumst kórnum þegar við kepptum á „Per musicam ad astra“ alþjóðlegu kórakeppninni í Torun, Póllandi árið 2016. Þar unnu báðir kórarnir til gullverðlauna í mismunandi flokkum keppninnar. Þegar þau ákváðu síðan að koma til Íslands, lá beinast við að halda tónleika saman,“ segir Arnar Freyr. Á tónleikunum munu báðir kórarnir flytja lög af sinni efnisskrá en einnig munu kórarnir syngja saman, bæði á íslensku og á sænsku. Efnisskrá Capella Snöstorp skiptist í þrennt en fyrst flytja þau sænsk lög sem hafa það sameiginlegt að fagna vorinu, síðan flytja þau nokkur trúarleg verk og enda síðan á sænskum þjóðlögum. Flensborgarkórinn mun flytja mikið af íslenskri kórtónlist bæði sígildri og einnig nýrri verk svo sem tvö nýleg verk eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson ásamt völdum erlendum perlum.

„Við ákváðum að hafa tónleikana ókeypis og vonumst með því að við getum troðfyllt Hamarsalinn og gefið Capella Snörstorp alvöru Hafnfirska móttöku! Það verða einnig söfnunarbaukar fyrir þau sem ólm vilja styrkja okkur, en Flensborgarkórinn fer til Eistlands í sumar á gríðarstóra Europa Cantat kóramótið sem hefur verið haldið allt frá árinu 1961. Búist er við yfir 4000 söngvurum víðs vegar úr heiminum sem takast á við fjölbreytt söngverkefni. Verkefni af þeirri stærðargráðu eru almennt ekki án kostnaðar og eru því allir styrkir, bæði stórir og smáir vel þegnir,“ segir Arnar Freyr. Kórstjórar eru Hrafnhildur Blomsterberg og Göran Persson.

Myndir aðsendar.