Ég fagna því að í samgönguáætlun til næstu fimm ára sé gert ráð fyrir tvöföldun Reykjanesbrautarinnar frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi. Framkvæmdirnar munu hefjast strax á næsta ári, en hægt er að bjóða út verkið um leið og samgönguáætlun verður samþykkt á Alþingi. Í fyrsta skipti er raunhæf áætlun sett fram með fyrirsjáanleika sem hægt er að vinna eftir. Hér er einnig verið að taka heildstætt á vandanum og er fimm ára samgönguáætlun fullfjármögnuð. Á árinu 2020 munu 300 milljónir króna fara í vegkaflann milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns. Þeim framkvæmdum skal vera lokið árið 2028, hugsanlega fyrr ef hægt er að hraða framkvæmdum.

Af öðrum brýnum framkvæmdum

Mörg brýn verkefni liggja fyrir í uppbyggingu stofnvegakerfisins í gegnum bæinn og eru þar sérstaklega tvenn gatnamót sem eru hætt að anna þeirri miklu umferð sem um þau fara. Það eru Hlíðartorg við N1 og svo FH-torgið við Kaplakrika og Bæjarhraun. Hér þarf að auka flutningsgetu og tryggja umferðaröryggi til framtíðar.

Gerð ofanbyggðavegar og Álftanesvegar ásamt mislægum gatnamótum við Álftanesveg og í Engidal þarf að skoða sem raunhæfan valkost. Það er öllum ljóst að miðbær Hafnarfarðar mun ekki anna þeirri umferð sem nú þegar er á maðan framkvæmdir við Hlíðartorg og FH-torg eiga sér stað.
Þessar framkvæmdir þurfa að haldast í hendur við þær framkvæmdir sem fram undan eru á Reykjanesbrautinni á næstu árum.

Fjármögnun þarf að tryggja

Við erum í þessum mikilvæga málaflokki að kljást við ákveðinn fortíðarvanda, þar sem of litlum fjármunum hefur verið varið til samgöngumála í of langan tíma. Við erum sem betur fer að sjá breytingu á því í öllum áætlunum ríkisstjórnarinnar. Fjárveitingar til samgöngumála hafa hækkað um 12 milljarða króna undanfarin þrjú ár og hafa aldrei verið meiri. Þrátt fyrir þessa miklu aukningu er ljóst að meira fjármagn þarf til ef við ætlum okkur að framkvæma meira og flýta ákveðnum framkvæmdum.
Ég tel rétt að horft sé til nýrra tekjustofna þegar kemur að fjármögnun samgönguverkefna. Ég bind því miklar vonir við þá vinnu sem nú er í gangi varðandi heildarendurskoðun gjaldtöku í samgöngumálum og geng með þá von í brjósti að hún skili okkur á þann stað að hægt verði að flýta þeim fjölmörgu brýnu framkvæmdum sem við horfumst í augu við hér í Hafnarfirði.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs