Til hamingju Hafnfirðingar með dásamlega bæinn okkar sem fagnaði 110 ára kaupstaðarafmæli þann 1. júní sl. Bærinn hefur vaknað af vetrardvalanum og iðar af lífi!  Það verður mikið að gera hjá okkur um helgina en veislan byrjar á laugardaginn þegar bein útsending verður á Thorsplani af fyrsta leik Íslands á HM á móti Argentínu. Þar getum við öll safnast saman og stutt strákana  okkar. Látum HÚH-ið heyrast alla leið til Rússlands! Á sunnudaginn munum við svo halda 17. júní hátíðlegan með glæsilegri dagskrá eins og venjan er. Skrúðgangan fer frá Flensborg að Thorsplani þar  sem verður þétt dagskrá af skemmtiatriðum fram eftir degi. Það verða einnig hafnfirsk atriði við Hafnarborg og Byggðasafnið. Mikið fjör verður á Strandgötunni með sölubásum, leiktækjum, andlitsmálum, bubbleboltum að ógleymdri hestakerrunni. Austurgötuhátíðin verður á sínum stað með lifandi tónlist, mat, flóamarkaði, handverki, heitu súkkulaði og vöfflum. Svo er hægt að rölta að tjörninni þar sem börnin geta fengið að sigla á bátum eða kajak.

Bæjarstæðið okkar og Thorsplanið hentar einstaklega vel til svona hátíðarhalda og það er sannkölluð karnival stemming sem myndast á 17. júní á hverju ári og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Ég hvet ykkur eindregið til að taka þátt í hátíðarhöldunum, mæta í bæinn og fagna deginum með okkur. Sjáumst í hafnfirsku stuði!

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, stoltur Hafnfirðingur sem situr í þjóðhátíðarnefnd