Fyrsta skiptið var frumsýnd í Gaflaraleikhúsinu í kvöld fyrir troðfullu húsi. Auk þess er uppselt á þrjá fyrstu sýningarnar. Fjarðarpósturinn skellti sér á sýninguna, sem sló heldur betur í gegn. 

Sýningin er sett fram á einstaklega einlægan og opinskáan hátt. Fjallað er um allt frá því að losa vandræðalega um brjóstahaldara og fyrsta kossinum til fyrstu sjálfsfróunarinnar, fyrsta kynlífsins og fyrstu sambandsslitanna. Ungu leikararnir, Arnór Björnsson, Berglind Alda Ástþórsdóttir, Inga Steinunn Henningsdóttir, Óli Gunnar Gunnarsson og Mikael Emil Kaaber, ná verulega góðu sambandi við áhorfendur, sem svoleiðis emjuðu af hlátri meira og minna allan tímann. Leikstjórinn er hin reynda Björk Jakobsdóttir og bar sýningin þess greinileg merki að leikhópurinn hafi verið í afar góðum höndum hjá henni undanfarna 10 mánuði.

Ljóst er að þessi sýning á eftir að laða til sín fjölda áhorfenda, sérstaklega á unglingsaldri, því skilaboðin til þeirra eru svo heiðarleg, falleg og sönn.

Hér má nálgast miða. Myndir/OBÞ