Ég sit hér og lít út um gluggann. Þessi þjónustuíbúð var nánast lífgjöf frá bænum.
Félagsmiðstöðin á efstu hæðinni hefur gert það að verkum að ég þarf ekki lengur að húka
einn og bora í naflann hvern einasta dag. Í gær komu nokkrir háskólanemar sem ræddu við
mig og aðra um fyrri tíma. Fyrir 27 árum fóru fram bæjarstjórnarkosningar og Píratar komust
í bæjarstjórn.

Fjórum árum áður höfðu Píratar boðið fram í fyrsta skipti og þótti fólki nóg um
því aðeins munaði 6 atkvæðum að það næðist inn Pírati í Hafnarfirði. Í landsmálunum höfðu
Píratar sætt mikilli gagnrýni framan af en árið 2018 voru komin Píratamál í stefnuskrár hinna
flokkanna. En eftir þessar kosningar, eins og hendi væri veifað, þá voru komin drög að
íbúðakjörnum fyrir eldri borgara með félagsmiðstöðvum þar sem við vorum höfð með í
ráðum.

Það er eins og bæjarstjórn hafi áttað sig á því með tilkomu Pírata að bæjarbúar hafi
virkilega skoðanir á því sem er að gerast. Kosið var um staðsetningu og þegar það var í höfn
þá hófust yfirvöld þegar handa við að bæta við Borgarlínuna til að þjónusta þennan kjarna.

Og maður lifandi, öll þjónustan sem við höfum fengið með tilkomu þessara úthugsuðu
þjónustukjarna. Maðurinn í næstu íbúð missti konuna sína fyrir ári og þá bauðst honum strax
sálfræðiþjónusta og hugræn atferlismeðferð, sem hefur hreinlega bjargað karlgarminum. Ég
hitti hann orðið daglega í æfingasalnum þar sem við stundum líkamsrækt áður en við förum
saman í mat. Það er allt annað að sjá hann.

Hallur Guðmundsson skipaði 4. sætið á lista Pírata við sveitarstjórnarkosningarnar 2018