Þar sem seldist upp á Bubba Morthens-Gott að elska á Valentínusardaginn í Bæjarbíói þá var ákveðið að bæta við aukatónleikum fimmtudaginn 15. febrúar. Á þessum tónleikum flytur Bubbi eingöngu lög tengd ástinni. Við spjölluðum við Bubba og að sjálfsögðu um ástina.

Tvær af yngstu dætrum Bubba, Dögun París og Aþena Lind, voru lasnar heima þegar við heyrðum í honum og það var nóg að gera hjá honum við að baka pönnukökur, hella mjólk í glös og sinna þeim. Bubbi er á 62. aldursári og hann og eiginkona hans, Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, eiga samtals sex börn. Hvernig er að vera aftur faðir með ung börn? „Þetta eru forréttindi og toppurinn á tilverunni. Ég fékk annað tækifæri í uppeldi og segi alveg eins og er að ég vildi óska þess að karlmenn þroskuðust fyrr á milli þrítugs og fertugs. Maður heldur að maður hafi miklu meiri tíma en maður hefur og að maður sé að standa sig. Þetta er svo stuttur tími sem maður hefur með börnunum. Í dag er nýtur ég þess dýpra og þessu fylgir meiri þakklæti og skilningur á því hvað er dýrmætt og skiptir máli,“ segir Bubbi.

Ást á öllum plötunum

Bubbi hefur áratugum saman samið lög og texta um ástina á einhvern hátt og gefið út á plötum sínum. Nýjasta platan hans, Túngumál, er þar engin undantekning. Sú plata hefur fengið góðar undirtektir og vilja gagnrýnendur meina að þetta sé ein af hans allra bestu plötum. „Þar er ástin öðruvísi en ‘mainstreamið’. Ég samdi t.d. um ást á milli tveggja karlmanna; um mann sem ég þekkti og reyndist mér rosalega vel. Hann var af þeirri kynslóð þegar hommar voru bara barðir úti á götu. Ást fíkils er líka til,“ segir Bubbi, en hann hefur frá upphafi ferils farið ótroðnar slóðir og verið á undan sinni samtíð með efnistök. „Ég hef oft sungið inn á plötur eitthvað sem aðrir hafa ekki gert eða gerðu töluvert síðar.“

Kærleikurinn mikilvægastur

Hvernig er ástin í dag hjá Bubba Morthens? „Það er ekki lengur sjálfsmiðuð ást, heldur djúp. Ástin er nefnilega margs konar. Það eru svo mörg lög af henni. Ekki bara ég elska þig og þú elskar mig og svo er farið upp í rúm. Ástin getur verið grimm og eyðileggjandi, en einnig nærandi og huggandi. Ástin er hreyfiafl og í hringum hana hverfist allt gott. Úr ást sprettur kærleikur sem er þegar uppi er staðið miklvægastur. Að elska er ákvörðunartaka, að verða ástfanginn en líffræðilegt. Eina leiðin til að sýna öðrum einlæga ást er að elska sjálfan sig án skilyrða.“

Á tónleikunum í Bæjarbíói mun Bubbi spila glæný lög í bland við eldri. „Mér þykir alltaf gott að syngja um ástina og varpa upp flötum hennar, það er æðislegt. Aðal málið er að þora að vera einlægur,“ segir Bubbi að lokum.

Í samtarfi við Von mathús verður boðið upp á þriggja rétta rómantískan tónleikamatseðil á undan tónleikunum. Verð fyrir þriggja rétta matseðil og  tónleika er 10.990.- og um takmarkað magn miða er að ræða í mat og á tónleika. Miðasala fer fram á miði.is og einnig er hægt að panta borð og miða á Von.

 

Myndir: í eigu Bubba.