Við stöndum frammi fyrir nýrri ógn í samfélaginu en það eru aukin geðheilbrigðisvandamál hjá ungu fólki. Í greinaskrifum og umfjöllun í samfélaginu er m.a. talað um aukna notkun snjalltækja og samfélagsmiðla sem orsakavald. Aukinn námsleiði og brottfall úr skóla hjá ungum strákum og kvíði og þunglyndi hjá stelpum í 9. og 10. bekk er mikið áhyggjuefni. Rannsóknin ​Ungt fólk 2016 8.-10. bekk ​sýnir til að mynda sláandi aukningu á kvíða og þunglyndi hjá stelpum í efstu bekkjum grunnskóla. Við þessu þarf að bregðast. Við í Miðflokknum viljum sjá bætta geðheilbrigðisþjónustu í Hafnarfirði þar sem áhersla er lögð á forvarnir, fræðslu, snemmtæka íhlutun og eftirfylgd á öllum stigum skólakerfisins. Það þarf að efla þjónustu geðhjúkrunarfræðinga og sálfræðinga og auka aðgengi nemenda að þeim. Nemendur sem eru farnir að finna fyrir kvíða og þunglyndi og komnir með námsleiða leiðast frekar út í neyslu. Við ætlum að beita okkur fyrir því að fundin séu almennileg úrræði fyrir börn og unglinga sem eru háð vímuefnum og efla fjölskyldumeðferð í tengslum við þessa þætti. Rannsóknir sýna að sífellt fleiri drengir á aldrinum 17 til 24 ára eru orðnir öryrkjar vegna andlegra veikinda. Vitundarvakning er hafin í samfélaginu og það þarf að vera samstarf okkar allra, okkar foreldranna, sveitarfélaga og ríkis að grípa inn í og standa klár að því að berjast við þessa ógn saman og sigra.

Bjarney Grendal Jóhannesdóttir
2. sæti fyrir Miðflokkinn í Hafnarfirði