Rekstraraðilar tónlistar- og menningarhússins Bæjarbíós í Hafnarfirði standa í stórræðum þessa dagana, en á morgun, föstudag, opna þeir Mathiesenstofu sem er samtengd Bæjarbíói. Bæjarbíó hefur síðustu misseri blómstrað sem tónleikasalur og keppast vinsælustu flytjendur landsins við það að koma fram í húsinu og hefur bæði hljómburður og aðstaða í húsinu verið rómuð bæði af leik- og atvinnumönnum í tónlistargeiranum.

Bæjarbíó sjálft stendur við Strandgötu 6 en með stækkuninni er gert innangengt inn í Strandgötu 4 sem oftast er kallað Mathiesen húsið í daglegu tali í Hafnarfirði. Þetta fornfræga hús sem áður hýsti verslunarstarfsemi og fleira verður þannig aftur aðgengilegt bæjarbúum. Rekstaraðilar Bæjarbíós sjá þetta sem aukið rými fyrir tónleikagesti en með stækkuninni mun fara betur um gestina fyrir, eftir og í hlé á tónleikum.

„Upplifun af góðum tónleikum fer ekki bara fram inni í salnum heldur er það félagsskapurinn sem maður kemur með, hvort sem það eru vinir eða vandamenn. Með þessari stækkun fer mun betur um gestina okkar fyrir og eftir tónlistarflutninginn,“ segir Páll Eyjólfsson sem fer fyrir rekstaraðilum hússins. „Við erum líka að heiðra Björgvin Halldórsson í Matiesenstofunni“ en þar vísar Páll í það að suðvestur álma stofunnar verður tileinkuð Björgvini Halldórssyni.

„Björgvin er ástsælasti söngvari þjóðarinnar, hann er Hafnfirðingur og alltaf verið trúr sínum rótum og verið ötull stuðningsmaður þess sem við höfum verið að gera hér í Bæjarbíói síðan við tókum við rekstrinum og okkur hefur þótt vænt um að finna hversu heils hugar hann hefur hvatt okkur áfram og lagt okkur til góð ráð og verið duglegur við tónleikahald hjá okkur.“

Þannig verður sérstakur „Gullveggur“ með völdum myndum frá ferli Björgvins í Mathiesenstofu. „Í bíóinu er allt verndað þannig að þar var ekki hægt að gera neitt svona þar inni en okkur langar með „Gullvegnum“ að sýna Björgvini örlítinn sæmdar- og virðingarvott fyrir allt sem hann hefur lagt þjóðinni og bænum sínum til,“ bætir Páll við.

Björgvin Halldórsson fyrir framan Bæjarbíó.

Björgvin segist oft hafa alist upp á þriðja bekk í Bæjarbíó og sagði meðal annars í viðtali við Fjarðarpóstinn í desember 2016:

„Fyrst var farið í KFUM klukkan tvö og við fengum Jesúmyndir. Svo var skipt á einum Júdasi fyrir þrjá Jesúa. Svo var farið með hasarblöðin undir úlpunum í Bæjarbíó á 3bíó og þau seld fyrir sýningu og í hlé til að fjármagna sælgætiskaupin. Það kostaði 6 krónur í bíó man ég eftir. Eftir sýningu var farið uppí hraun og kvikmyndin leikin í fullri lengd. Þar fæddist klassíski frasinn….” Pant vera aðal segir einn…og þá segir sá næsti…pant vera besti vinur aðal,” bætti hann við.

Söguágrip Strandgötu 4 tekin saman af Bæjarminjaverði Hafnarfjarðar:

Strandgata 4 var byggð árið 1930 fyrir Jón Mathiesen kaupmann. Teikningin var eftir Emil Jónsson og yfirsmiður var Lárus Lárusson. Samkvæmt brunavirðingu 31. Maí 1930 er húsinu lýst á eftirfarandi hátt:

„Íbúðar og verslunarhús 2 lyft með 3.70m risi. H.14.50 , B.8.50 L. 5.80. Niðri skift í 3 sölubúðir, forstofu og gang. Uppi skift í 3 veitingastofur, 1 veitingasal 2 ganga 1 eldhús, bað vatnsalerni og smáherbergi. Rishæðinni, sem er með kvistum er skift í 4 stofur eldhús, gang bað og vatnssalerni. Allt er húsið húðað, korkur á útveggjum, flísar í eldhúsum bað og vatnssalernum, búðinni og vinnustöðum. Gólf sem ekki eru flísalögð eru ýmist kork eða dúklögð. Þakið úr timbri og hellulagt. Húsið er allt raflýst og málað. Undir öllu húsinu er kjallari skift í 2 kæliklefa miðsöð 2 vörugeymslu og 2 geymslur fyrir ýmislegt. Útbygging með veggsvölum.“

Jón Mathiesen opnaði verslun sína á neðstu hæðinni, deildarskipta sem var alger nýlunda á þeim tíma. Í auglýsingu af því tilefni sagði meðal annars: „Hafnfirðingar! Hef flutt verzlun mína í hið nýja hús mitt á Strandgötu 4, er starfar framvegis í deildum: Matar- Nýlenduvöru- og Skófatnaðar. Mun jeg framvegis eins og hintað til kappkosta að hafa aðeins það besta á boðstólnum, því það besta er aldrei of gott.“ Eitt helsta einkenni á samkeppni stærstu verslanna í Hafnarfirði, voru þau einkunarorð eða slagorð sem kaupmenn völdu verslun sinni. Jón Mathiesen reið á vaðið í þessum efnum, þegar hann opnaði fyrstu verslun sína með einkunarorðunum „Það besta er aldrei of gott.“

Ýmiskonar starfsemi hefur verið í húsinu m.a. Kaffi og matstofan Drífandi, Olíuverslun BP var með skrifstofur í húsinu, Sparisjóður Hafnarfjarðar, Skattstofa Reykjanesumdæmis og Hafnarstjórn svo eitthvað sé nefnt. Húsið er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar.

Eitt og annað annað sem hefur tengingu í þetta hús er t.d. að kaffihúsið „Björninn“ hóf starfsemi sína hér áður en það flutti yfir götuna í „Hótel Björninn“. Til er auglýsing frá 1930 þar sem segir: Kaffihúsið „Björninn“, er flutt í hið nýja hús Jóns Mathiesen við Strandgötu og verður opnað á morgun (sunnudag) [það var sumsé 18. 05. 1930]. Þriggja manna orkester spilar frá kl. 8 — 11 um kvöldið.“ Og önnur: „Skautafjelag Hafnarfjarðar. Skemmtifundur (spil og dans) kl. 9. í kvöld á „Birninum“ (í nýja húsi Jóns Mathiesen).“ Það má skjóta því inn að símanúmerin í verslun Jóns voru 101 og 201. Hann auglýsti mikið kodak fimur og að hann sæi um framköllun og coperingu, einnig var hann með þá nýlundu að senda fólki heim þvegið og hreinsað slátur ef keyptir voru 5 keppir eða meira. Verslun Jóns var starfrækt til 1972 í húsinu.