Fimmtudaginn 17. maí boðaði félag eldri borgara í Hafnarfirði til fundar með öllum þeim framboðum sem bjóða fram til sveitastjórnar. Við í Framsókn og óháðum þökkum fyrir afar góðan fund.

Framsókn og óháðir ætla að blása til stórsóknar til að bæta þjónustu við eldri borgara. Það sem við ætlum m.a. að gera er eftirfarandi:

  • Hækka frístundastyrk í 70.000 kr. á ári.
  • Stórauka persónulega þjónustu við eldri borgara þegar kemur að heimaþjónustu.
  • Bæta akstursþjónustu, m.a. með því að nýta frístundabílinn fyrri part dags fyrir eldri borgara.
  • Ráðast strax í fjölgun hjúkrunarrýma og þjónustuíbúða.
  • Auka framboð á dagvistun.
  • Festa heilsueflingu í sessi.

Einnig ætlum við að auka aðgengi að heitum mat í hádeginu þannig að eldri borgarar geti keypt stakar máltíðir og sótt mat í hádeginu í mötuneyti grunnskólanna og tekið með sér heim. Þeir sem hafa ekki tök á því að sækja mat geta þá fengið sent heim.

Það þarf að nýta betur húsnæði bæjarins fyrir eldri borgara. Til dæmis húsnæði grunnskólanna sem stendur yfiireitt tómt um helgar og yfir sumarið. Hægt að nýta húsnæði skólanna til námskeiða og ýmisskonar frístundastarfs. Einnig eru íþróttahús við suma grunnskóla sem mætti nýta til íþróttaiðkunar fyrir eldri borgara.

Það þarf að vinna betur í málefnum eldri borgara. Við í Framsókn og óháðum ætlum strax í þá vinnu eftir kosningar. Við erum margfalt sterkari saman.

Valdimar Víðisson, skólastjóri Öldutúnsskóla, skipar annað sætið á lista Framsóknar og óháðra.