Rúnbrá er nýtt vörumerki sem systurnar Lísa Rún og Silja Brá Guðlaugsdætur þróuðu saman í algerri sjálfsbjargarviðleitni eftir erfitt tímabil í lífinu. Þær búa til heimagerðar vörur fyrir fjölskyldur og heimili. Systurnar eru uppaldar á höfuðborgarsvæðinu, eru mæður með stóra drauma og hafa trú hvor á annarri. Báðar urðu þær fyrir einelti í æsku sem hefur mótað þær fyrir lífstíð, en þær geisla þó af jákvæðni, bjartsýni og góðmennsku. Við hittum systurnar á heimili Silju Brár, þar sem netverslunin þeirra verður opin á mánudögum á milli 16 og 18.

Lísa Rún fór ein með son sinn, Davíð Þór, að elta draumana sína og krækja BA gráðu við Listaháskóla í Bretlandi (2014) þegar sonurinn var 3 – 6 ára. „Nú glími ég við áfallastreitu, kvíða og þunglyndi í kjölfar raða af áföllum. Það eiga einhvern veginn allir að standa sig og vera duglegir og það var ekki fyrr en sl. áramót sem ég þorði að segja upphátt að ég væri ekki að vinna vegna heilsubrests. Svo kom metoo-byltingin sem fletti ofan af falls kyns áföllum,“ segir Lísa, sem fékk synjun um örorkubætur en er samt of veik til að mega nýta úrræði VIRK. Hún er að bíða eftir að komast að inn á Hvítabandið. Þar er árs bið. „Ég er að berjast við kerfið; læknana og heilsugæsluna. Ég er of veik eða ekki nógu veik. Þetta er búið að vera rosalega erfitt.“

Systurnar, Lísa Rún og Silja Brá, hafa staðið saman í gegnum súrt og sætt.

Flæðið kom og árangur í framhaldi

Listsköpunin hefur oft hjálpað Lísu að takast á við slíkar afleiðingar og það gerðist einmitt í þessu ferli. „Þegar Silja Brá var á fullu að framleiða fyrir fjáröflun vegna tungumála- og fótboltaskóla fyrir Davíð Þór son minn, þá var ég að vafra á netinu og sá fyrir tilviljun perlur og dót sem hægt er að föndra úr. Ég pantaði föndurbox heim og byrjaði,“ segir Lísa Rún. Þetta vatt upp á sig og Lísa Rún kláraði föndurefnið úr boxinu og pantaði meira. „Þetta gerði svo mikið fyrir mig því þarna var ég að skapa án utanaðkomandi þrýstings. Það var enginn að ætlast til neins af mér eða ég að uppfylla einhverjar kröfur. Þetta var bara flæði og ég sá strax árangur og náði að klára einn lítinn hlut í einu.“

Nag-hringlunar.

Sílíkonið í ungbarnahringlunum er fyrir klæjandi góma og viðurinn til að hjálpa tönnunum að brjótast í gegn. Lísa Rún setur kókosolíu utan um allan við áður en hún vinnur með hann. „Vörurnar eru lán BPA, latex og annarra eiturefna. Börnin eiga heldur ekki að geta nagað í gegnum böndin. Mömmu-hálsmenin eru til þess að mamman geti verið með fallegt skart sem börnin mega naga,“ segir Lísa Rún.

Mömmu menin eru afar falleg og litrík.

Svona virkar mömmu-menið.

Krakkarnir elska að nota kæli- og hitapokana.

Rúnbrá er millinöfn systranna

Silja Brá er mikill föndrari og dugleg að taka að sér ný og spennandi verkefni. Nú eru hún og sambýlismaður hennar búin að kaupa sér hús á Hvaleyrarholtinu og eru að gera það upp. Hún er lærður framreiðslumaður, meistari með kennsluréttindi og kennir þjóninn í Menntaskólanum í Kópavogi. Á milli þess að kenna og sinna börnum sínum af mikilli alúð sest hún við saumavélina og töfrarnir gerast. „Ég sauma m.a. barnaföt, hita/kælipoka og smekki og gerði m.a. lífrænar sápur og gaf í mikilvæga fjáröflun fyrir litla frænda, eins og áður hefur komið fram. Í raun vatt þetta upp á sig og gerðist hratt því í framhaldinu völdum við nafnið Rúnbrá, sem eru millinöfnin okkar, og við fórum bara af stað“

Slefsmekkir og risaeðlubuxur.

Lífrænu sápurnar.

Hita- og kælipúðarnir eru til í tveimur tegundum.

Slegist um hitapúðana
Kæli- og hitapúðarnir eru í tvenns konar línum, bútalínu (úr endurunnu efni m.a. úr Rauða krossinum) og svo múmínálfalínu (úr efni sem er sér innkeypt). Púðana nægir að hita í örbylgjuofni eða setja í frysti og þeir halda vel bæði kulda og hita. „Krakkar elska að fá þetta þegar þau meiða sig eða hafa hjá sér þegar þau eru að sofna. Það er slegist um hitapúðana á okkar heimilum því það er svo gott að slaka á með þá. Púðarnir eru líka frískandi fyrir þrútin augnsvæði og sniðugt er að setja þá á mjóbakið eða á magann við túrverkjum. Við jafnvel látum púðana hita upp sængurnar á veturna áður en við förum upp í,“ segir Silja Brá og hlær.

Þarna er verið að búa til vörurnar.

Systurnar þegar þær tóku þátt í Kjalarnesdögum.

Markaðir og Facebook síða

Systurnar reyna að vera eins umhverfisvænar og þeim er unnt, m.a. með því að nýta bútana, hafa ungbarnavörurnar eiturefnalausar og hafa pakkningar í lágmarki. Draumurinn um sameiginlega verslun hefur blundað í þeim frá bernsku. Nú grípa þær tækifærin og fara á nokkra markaði í sumar. „Við horfum björtum augum til framtíðar og hlökkum til að leyfa fleirum að njóta varanna sem við erum að gera. Við höldum uppi Facebook síðunni Rúnbrá Design en þar verður hægt að skoða og panta, með fyrirvara um hvað er til, “segir Silja Brá að lokum og tekur síðar óvænt fram að á meðan Lísa Rún er að berjast við veikindi sín muni allur ágóði sinn af sölu varanna renna beint til Lísu Rúnar. Systrakærleikur í sinni fallegustu mynd.

Silja Brá ætlar að gefa Lísu Rún allan ágóða af sölu á sínum vörum.

Hér er Facebook síða Rúnbrár Design.

Myndir/OBÞ og af Facebook síðu Rúnbrár.