Fyrsti opinberi blakleikur Hauka fór fram á Ásvöllum um þarliðna helgi þegar Haukar mættu Þrótti Reykjavík í Kjörísbikar kvenna. Leikurinn fór 3-0 fyrir Þrótti en í bikarleik Kjörísbikarsins verður sigurliðið að vinna 3 hrinur. Getur því leikurinn farið mest upp í 5 hrinur. Þjálfari Haukaliðsins er Karl Sigurðsson og fyrirliði Steinunn Jenný Skúladóttir. Síðasti opinberi leikur í blaki var haldinn 1974 við Strandgötu.

 Fjöldi fólks mætti á áhorfendapallana á Ásvöllum og studdu sitt lið áfram í leiknum. Jason Ívarsson, formaður Blaksambands Íslands, veitti fyrir leikinn Karólínu Helgu Símonardóttur, formanni blakdeildar Hauka, viðurkenningu vegna leiksins. Fjarðarpósturinn heyrði í Karólínu: „Við tókum á móti gríðarsterku liði Þróttar Reykjavík. Þær eru í úrvalsdeild og Haukar í 4. deild. Skv. Janusi Guðlaugssuyni, formanni BsÍ, þá var síðast haldinn opinber leikur àrið 1974 en það var alþjóðlegur leikur og var þá haldinn við Strandgötu. 

Berjast fyrir viðurkenningu innan Hauka

Í viðtali við blakfrettir.is sagði Karl þjálfari m.a. að úrslitin hafi ekki verið óvænt en honum fannst Haukastelpurnar standa sig mjög vel og þá sérstaklega í upphafi. „Við erum að læra og þær eru auðvitað að taka þátt í fyrsta skipti í leik á móti liði í þessari getu og það er auðvitað bara nýtt fyrir þeim og þær þurfa bara tíma til að læra það og það kemur. Eins og er þá hefur aðalstjórn Hauka ekki samþykkt okkur inn sem íþróttadeild innan Hauka, við erum ennþá skilgreind sem almenningsdeild og meðan það er þá getum við ekki farið af stað með barnastarf. Við höldum áfram þeirri baráttu fyrir viðurkenningunni.“

Deildin stofnuð 2014

Blakdeild Hauka var stofnuð í október 2014 og hefur starfið vaxið vel frá stofnun deildarinnar. Haukar tefla nú fram 4 liðum í deildarkeppni BLÍ, 1 karlalið í 3. deild karla og svo 3 kvennalið sem spila í 4. 5. og 6. deild kvenna. 4.deildar lið Hauka tók þátt í Kjörísbikar kvenna og hafði fyrir leikinn spilað einn leik í bikarkeppninni þegar liðið mætti Stjörnunni D í 1. umferð og höfðu Haukar þar betur 3-1. Haukar sátu svo hjá í 2. umferð og fóru því beint í 3. umferð þar sem liðið tók á móti Þrótti Reykjavík í leiknum á sunnudag.

 

Myndir:

Liðin sem öttu kappi: Halldór Jón Garðarsson.

Karl og Karólína: Af síðunni blakfrettir.is