Meðalbiðtími eftir húsnæði 6 ár

Á biðlista eftir íbúðum fyrir fatlað fólk eru 56 einstaklingar og þar af eru 28 í brýnni þörf. Meðalbiðtími er 6 ár og flestir á biðlistanum hafa sótt um fyrir 5 árum. Bráðavandinn er því mikill og aðkallandi. Þessar upplýsingar koma fram í svörum Fjölskyldusviðs við fyrirspurn Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði. Á bak við þennan hóp eru fjölskyldur og aðstandendur sem varið hafa ómældum tíma og vinnu í baráttu við kerfið. Þetta er óviðunandi ástand og brot á mannréttindum fatlaðs fólks.

Ábyrgð sveitarstjórnar skýr

Fatlað fólk á rétt á sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélaginu. Í því felst að fatlað fólk geti valið sér búsetustað til jafns við aðra. Í lögum um húsnæðismál er skýrt kveðið á um ábyrgð sveitarstjórnar á því að leysa húsnæðisþörf þess fólks sem þarfnast aðstoðar við húsnæðisöflun. Lög um málefni fatlaðs fólks kveða svo á um að fatlað fólk eigi kost á félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili sem og til að gera því kleift að taka fullan þátt í samfélaginu. Þar kemur einnig fram að sveitarfélög skuli tryggja að framboð af húsnæðisúrræðum sé til staðar í sveitarfélaginu. Ábyrgð sveitarstjórnar í málaflokknum ætti því að vera öllum ljós.

Samfylkingin setur málið á dagskrá

Til þess að bregðast við bráðavandanum lagði Samfylkingin fram tillögu á síðasta bæjarstjórnarfundi um að fela Fjölskylduráði að finna leiðir til þess að vinna á honum bug. Tillagan var samþykkt samhljóða. Fjölskylduráð skal hafa snör handtök svo hægt verði að fjármagna lausnirnar í næstu fjárhagsáætlun. Í vinnu Fjölskylduráðs er mikilvægt að ráðið leiti til notenda þjónustunnar og heyri þeirra sjónmarmið. Þannig verða bestu og raunhæfustu lausnirnar til sem munu nýtast notendum þjónustunnar best.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Höfundur er fulltrúi Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði