Pétur Viðarsson og fjölskylda keyptu Pylsubarinn í Hafnarfirði 15. maí síðastliðinn af Hannesi Ragnarssyni og Halldóru Lúðvíksdóttur, sem höfðu rekið þetta rógróna fyrirtæki í 19 ár. Við kíktum við og spurðum Pétur út í þetta stóra skref.

„Amma og afi bjuggu við Klettahraun og fóru oft með mig hingað til að kaupa samloku og franskar þegar ég var lítill strákur. Hér fengust líka langbestu frönskurnar.“

„Ég byrjaði á því að koma hingað í þjálfun í þrjár vikur til að ná réttu tökunum á rekstrinum. Þannig kynntist ég Hannesi og Dóru mjög vel og vissi að ég væri að taka við frábæru búi sem þau höfðu byggt upp í öll þessi ár,“ segir Pétur stoltur, en hann hefur sjálfur verið einn fjölmargra viðskiptavina Pylsubarsins í gegnum árin. „Amma og afi bjuggu við Klettahraun og fóru oft með mig hingað til að kaupa samloku og franskar þegar ég var lítill strákur. Hér fengust líka langbestu frönskurnar. Nostalgíska tengingin er því sterk og Pylsubarinn er eins og nokkurs konar stofnun sem allir Hafnfirðingar þekkja.“

Girnileg pulled pork – grísasamloka.

Margir fastir kúnnar

Pétur stundaði nám í Ástralíu í tvö ár og kom svo aftur til Íslands með pælingar um veitingarekstur. „Eitt af því sem við skoðuðum var Pylsubarinn. Það var ekkert beint planað, en pabbi, Viðar Pétursson, er aðal fjárfestirinn. Ég og kærasta mín, Elín Lovísa Elíasdóttir,  sjáum um daglegan rekstur. Hún er reyndar líka flugfreyja en við hjálpumst að og þetta er snýst um miklu meira en að afgreiða mat ofan í fólk,“ segir Pétur. Það sem komið hafi skemmtilegast á óvart sé kúnnahópurinn. „Þeir bara elska þennan stað og það eru svo margir fastir kúnnar, sem vilja ræða málin. Hér er líka alveg frábært starfsfólk og við vorum svo heppin að María Ósk Sigurðardóttir var til í að fylgja með yfir til nýrra rekstraraðila. Hún er búin að starfa hér í níu ár og veit hvað fólk vill. Það er ómetanlegt.“

Djúpsteikt pylsa með osti.

Pétur bætir svo við að Hannes hafi verið afar jákvæður í sinn garð við að koma og leiðbeina þegar svo liggur við. „Ég hika ekki við að hringja í Hannes og hann er alltaf til í að hjálpa og hefur jafnvel boðist til að leysa af. Þau hjón eru æðislegt fólk og við viljum halda heiðri þeirra á lofti með því að bjóða upp á sama úrval og þau. Við bættum bara við smá nýjungum, s.s. hreindýraborgara og grísasamloku. Við erum í samstarfi við Kjötkompaní og því komin í hæsta gæðaflokk með hráefni,“ segir Pétur að lokum.

 

Myndir OBÞ