Söngkonan Guðrún Árný Karlsdóttir heldur tónleika í Víðistaðakirkju 13. og 14. desember nk. ásamt barna- og unglingakór Hafnarfjarðarkirkju. Gestasöngvarar verða þau Arnar Jónsson og Dísella Lárusdóttir. Guðrún Árný er mikið jólabarn og hélt m.a.s. sumarjól í sumar.

Guðrún Árný hefur um langa hríð verið mjög upptekin í desember við að sinna jólaundirbúningi og að syngja. Hún kláraði jólagjafakaupin um sl. helgi. „Ég er hannyrðakona og finnst rosalega gaman að búa til jólagjafir. Þær verða bara óvenju fáar í ár vegna anna. Núna fer ég í að setja upp hvítu seríurnar utan og innan húss og svo verð ég búin að öllu, nema skreyta jólatréð, fyrir 1. desember. Ég er reyndar svo mikið jólabarn að ég hélt líka sumarjól í sumar með Soffíu systur og fjölskyldum okkar,“ segir hún stolt og hlæjandi. Hugmyndina fékk hún hjá vinkonu sinni sem er jafn mikið jólabarn.

Með sonunum við Thorsplan, að sjálfsögðu með heitt kakó.

Heitt kakó í brúsa og smurt með

Það að halda tónleika segir Guðrún Árný að krefjist mikils undirbúnings og því verður nóg að gera í nóvembermánuði. „Ég er bókuð allar helgar í hinum og þessum verkefnum, þarf að æfa mig fyrir tónleikana mína, útsetja og fara á kóræfingar. Og svo verð ég líka með hugljúfa og lágstemmda jólatónlist á veitingastaðnum Krydd alla aðventuna, frá 15. nóvember og svo að sjálfsögðu í Jólaþorpinu þegar það hefst.“ Í desember reynir hún þó að leggja mesta áherslu á að njóta aðventunnar með fjölskyldu og vinum. „Það er hefð hjá mér og börnunum mínum að fara með strætó í fallega miðbæ Hafnarfjarðar, með heitt kakó í brúsa og smurt brauð. Svo setjumst við á bekk einhvers staðar og fáum stemninguna beint í æð. Einfaldleikinn er bestur og börnin kunna vel að meta hann,“ segir Guðrún Árný.

Sumarjólapakkarnir góðu.

Myndir í eigu G.Á.