Halldór Kristján Sigurðsson konfektgerðarmeistari hefur leiðbeint Íslendingum í konfektgerð undanfarin 20 ár eða síðan 1997 hann hélt fyrsta námskeiðið í eldhúsinu hjá móður sinni. Konfektvagninn er hugarfóstur Halldórs sem segir hann eina sinnar tegundar í heiminum.  

Vagninn er staðsettur við Thorsplan.

Eftir að Halldór hélt fyrsta námskeiðið vatt framtakið svo upp á sig og áhugi á konfektgerð meðal landsmanna jókst með árunum og þá sérstaklega fyrir jólin. „Mér datt svo í hug að kynna konfektgerðina fyrir erlendum gestum og þá kviknaði hugmyndin að láta smíða sérútbúinn vagn sem er í raun kennslustofa á hjólum. Þó að erlendir gestir komi er vagninn að sjálfsögðu fyrir Íslendinga líka,“ segir Halldór, en hann hefur einnig haldið námskeið í gegnum árin í krasnaköku- og páskaeggjagerð.

Góð umfjöllun í Lonley Planet

Aðspurður um hvernig hópar komi á námskeið segir Halldór það vera eiginlega bara alla flóruna, en þá aðallega þeir sem hafi áhuga á konfektgerð. „Það koma til mín saumaklúbbar, vinnustaðir, frístundaheimili og síðan hafa ferðamenn komið mikið í vagninn í sumar en ég fékk einmitt góða umfjöllun um námskeiðin í Lonley Planet sem er nokkuð útbreiddur miðill um allan heim.“

Tempra og steypa í mót

Námskeiðin ganga þannig fyrir sig að Halldór kennir fólki að tempra súkkulaði og steypa molana í konfektmót. „Allt hráefni, sem kemur frá Nóa Síríusi, ásamt konfektmótinu sjálfu er innifalið í námskeiðsverðinu og ég get kennt allt að 12 manns í einu.“ Vagninn hefur lengi vel verið staðsettur í miðborg Reykjavíkur en eftir samtöl við Markaðsstofu Hafnarfjarðarbæjar er hann nú kominn í Hafnarfjörð. „Áhugasamur fyrirtækjaeigandi hafði samband við mig og þá kviknaði áhugi minn á að koma með vagninn til Hafnarfjarðar. Ég hlakka til að sýna áhugsömum Hafnfirðingum og nærsveitarmönnum hvernig búa á til dýrindis konfekt,“ segir Halldór.

Mynd af síðu Konfektgerðarvagnsins. 

Vagninn verður staðsettur á Thorsplani næstu vikurnar og hægt er að hafa samband beint í gegnum Facebook síðuna eða á http://chocolatetrailer.com/book-now og þá geta einstaklingar bókað sig og þurfa ekki að vera í sértökum hópi. Næsta námskeið er 5. september og kostar kr. 3.984 sem Halldór segir að sé þónokkur afsláttur af venjulegu námskeiðsgjaldi. Kennslustundin er 60 mínútur.

Hér er kynningamyndband um vagninn: https://vimeo.com/231451816/8887e8db7f

Myndir: Olga Björt.