Hafnarfjarðarbær hefur gert samning við Capacent um vinnu vegna úttektar á stjórnsýslu bæjarins. Í vinnunni er sérstaklega horft til þess hvernig auka megi þjónustu og skilvirkni í rekstri og starfsemi sveitarfélagsins með hagnýtingu á upplýsingatækni, skýrari verkferlum og öflugu starfsumhverfi. Capacent vinnur greiningu og leggur mat á styrkleika og veikleika í þjónustu og hvernig hægt sé að auka skilvirkni í stjórnkerfinu. Við hittum Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra og Arnar Pálsson frá Capacent.

Við gerð málefnasamnings nýs meirihluta segir Rósa að bæjarfulltrúar hafi verið sammála um að brýnt væri að fara í þessi mál eftir umbætur í fjármálastjórn tímabilið á undan. „Það eru ákveðnir þættir í þjónustu sem má bæta og laga, sérstaklega varðandi samskipti íbúa og fyrirtækja við bæinn. Það þarf skýrara og skilvirkara ferli en verið hefur, nútímavæða það og nota upplýsingatæknina meira.“ Hollt sé fyrir svona stórt sveitarfélag að fara í gegnum stjórnsýsluna hjá sér og gera hlutina eins vel og hægt er.

Taka einnig eftir því sem vel er gert

Capacent hefur áður gert svona hefðbundna stjórnsýsluúttekt en þessi er frábrugðin vegna áherslu á þjónustuferla. „Núna þurfum við að opna glugga inn í stjórnsýsluna, eiga samtöl við fólk og vinna með ábendingar. Við munum ekki bara bera kennsl á úrbætur heldur endurhanna þjónustuna út frá kröfum íbúa Hafnarfjarðar. Í eðli svona verkefnis er svo ennig tekið eftir því sem vel er gert, bæði til að gera það þá líka annars staðar og líka til að verja styrkleikana og ýta undir þá.“ Rósa tekur undir þetta og bætir við: „Þetta er virkilega spennandi og strax með vorinu verður verið hægt að sjá árangur af þessari vinnu. Þetta er einstakt tækifæri til að hafa áhrif á starfsemi bæjarins. Við hvetjum alla til að taka þátt og hjálpa okkur að bæta þjónustuna. Slíkt verður aðeins gert í samvinnu sem þessari.“

Hér er hægt að smella til að deila reynslu og upplifun sinni af þjónustu Hafnarfjarðarbæjar. 

Opinn íbúafundur verður haldinn í Lækjarskóla þriðjudaginn 20. nóvember frá kl. 20-22.

 

Mynd/OBÞ