Golfklúbburinn Keilir opnar velli sína formlega föstudaginn 11. maí og við tókum púlsinn á Brynju Þórhallsdóttur, veitingastjóra golfskálans, en skálinn er vel staðsettur með fallegt útsýni yfir báða golfvelli golfklúbbsins, Hvaleyrarvöll og Sveinskotsvöll.

Frá því að skálanum var breytt fyrir ári síðan, þegar Keilir var 30 ára, segir Brynja að margir hafi komið í skálann, eingöngu til að fá sér léttan snæðing. „Hingað koma ekki bara golfarar. Það er svo hlýleg og falleg aðstaða hér og góður matur. Mörgum finnst notalegt að fá sér veitingar og njóta útsýnisins. Hingað eru allir velkomnir og þurfa ekkert að kunna í golfi,“ segir Brynja og brosir. Salötin og fiskurinn séu alltaf vinsæl á matseðlinum, en einnig sé boðið upp á kaffi, kökur og brauð. Hressandi drykkir séu líka ómissandi með.

Dagskrá golfsumarsins hjá Keili verður með nokkuð hefðbundnu sniði í ar. Meistaramótið færist fram um viku og Hvaleyrarbikarinn verður svo á sínum stað í vikunni á eftir. Vellirnir eru tveir, 18 holu Hvaleyrarvöllur og 9 holu Sveinskotsvöllur, auk fullbúins æfingasvæðis í Hraunkoti ásamt golfhermum á heimsmælikvarða.