Hafnarfjörður er heilsubær og því mikilvægt að hafa aðstöðu fyrir íbúana til að stunda heilsurækt. Sund er ein vinsælasta afþreying landsmanna og þær þrjár sundlaugar sem eru í Hafnarfirði eru vel sóttar bæði af bæjarbúum og gestum. Suðurbæjarlaug er eina útilaugin okkar og í áranna rás hefur orðið til uppsöfnuð viðhaldsþörf sem nú er mál að gefa gaum. Ég man þegar að Suðurbæjarlaug þótti flottasta sundlaugin á höfuðborgarsvæðinu og hingað streymdi fólk hvaðanæva að til að prufa sveppinn, rennibrautina sem var ein sú stærsta og njóta veðurblíðunnar í sundlaugargarðinum. Sveppurinn þótti mikil nýjung og var samskonar pottur settur í fleiri sundlaugar í kjölfarið.

Við í Sjálfstæðisflokknum viljum endurbyggja laugina og stórbæta aðstöðuna í henni og gera hana aftur að einni vinsælustu sundlaug landsins. Staðsetning laugarinnar er einstök þar sem er mjög skjólsælt vegna trjánna sem hana umlykja um leið og þau ljá svæðinu ákveðinn sjarma. Svæðið býður upp á mikla möguleika og til dæmis væri hægt að stækka útisvæðið, bæta aðstöðuna fyrir börn með því að bæta við vaðlaug og endurnýja rennibrautirnar. Það þarf einnig að fara í lagfæringar á búningsklefum og bæta heitu pottana sem eru mjög vinsælir. Það er mikið hjartans mál fyrir okkur í Sjálfstæðisflokknum að öll  þjónusta við íbúa sé með besta móti og góðar sundlaugar eru mikilvægar fyrir ánægju og lýðheilsu íbúanna. Höldum áfram að gera Hafnarfjörð frábæran – fyrir okkur öll!

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varaformaður ÍTH, 6. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins.