Við Vinstri græn trúum því að bæjarfélög séu fyrst og fremst samfélög en ekki fyrirtæki. Með þessa hugsun að leiðarljósi nálgumst við allar okkar áherslur í  bæjarmálum.

Í stefnu okkar fyrir þessar bæjarstjórnarkosningar leggjum við mikla áherslu á að gera betur við börn og barnafjölskyldur. Við viljum að öllum börnum séu tryggð þau réttindi sem þau eiga samkvæmt Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna. Við viljum breyta því að mörg hundruð börn á Íslandi búa við fátækt, sú staðreynd er fullkomlega óásættanlegt.

Við leggjum m.a. fram eftirfarandi þrjú atriði sem koma barnafjölskyldum vel.

  1. VG vill að Hafnarfjarðarbær greiði strætófargjöld fyrir öll börn undir 18 ára aldri sem það kjósa. Þannig drögum við verulega úr ferðakostnaði barnafjölskyldna. Við viljum fara ofan í saumana á ferðaáætlun almenningsvagna innanbæjar og fjölga ferðum. Með þessari aðgerð myndi einnig draga verulega úr skutli foreldra.

 

  1. VG vill að skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar. Kostnaður við skólamáltíðir er ekki mjög hár en með því að gera þær gjaldfrjálsar getur það munað miklu fyrir barnmargar og/eða efnalitlar fjölskyldur. Þetta myndi draga mjög úr mismunun innan skólanna og allir sætu við sama borð óháð efnahag.

 

  1. VG vill að nýbakaðir foreldrar fái gjafakassa frá Hafnarfjarðarbæ sem innihleldur m.a. bleyjur, samfellur og teppi. Með þessu styðjum við foreldra og bjóðum nýbura velkomna í bæinn okkar.

 

Látum það ekki líðast að börnin okkar búi við skort því við eigum peninga til að gera betur í Hafnarfirði.

 

Höfundur Fjölnir Sæmundsson skipar 2. sæti hjá VG fyrir bæjarstjórnarkosningarnar.